150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og hún er einföld að því leyti sem hún snýst um breytingu á stjórnarskrárákvæði, sem verður ekki fellt brott nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki undir hv. þingmanni eða ráðherra einum komið að breyta því, enda stór breyting og þjóðaratkvæðagreiðslu þörf. En ég held, já, að það sé óhjákvæmilega framtíðin að einn daginn verði þetta ákvæði stjórnarskrárinnar afnumið í takt við breytta þjóðfélagsmynd, í takt við breytingar í samfélagi okkar og aukna áherslu á trúfrelsi. Ég held að það sé ekki þörf fyrir kirkjuna að vera með þessum hætti hluti stjórnskipunar Íslands heldur sé það algerlega undir henni komið, burt séð frá þessum tengslum, í hvernig samband hún eigi við fólkið í landinu. Ef fólk treystir henni verður hún alltaf í einhverjum skilningi þjóðkirkja Íslands, ef fólk leitar til hennar bæði í blíðu og stríðu.