150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að leiðrétta ráðherra aðeins. Miðað við núverandi stjórnarskrá þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu til að breyta heldur bara almennar kosningar. Ég vil hafa það á hreinu.

Það er verið að ræða þessarar breytingar, segir ráðherra. Ég mótmæli því líka því að það er ekki alveg hægt að skipta þessu upp með salamí-aðferð sem svo hefur verið kölluð. Undir þessu liggur viðbótarsamkomulagið þegar allt kemur til alls þannig að við verðum að tala um þessa einstöku breytingu í heildarsamhengi viðbótarsamkomulagsins sem er ansi gallað, sérstaklega þegar horft er á lög um opinber fjármál. Með tilliti til þeirra spyr ég einfaldlega: Fyrir hvað er verið að borga? Hvernig er upphæðinni skipt í eignatilfærslu, varðandi stjórnarskrána og skuldbindingu þar, varðandi fangelsin sem var verið að tala um? Við á Alþingi fáum bara eina upphæð og höfum ekki hugmynd um hvað við erum að samþykkja og það gengur ekki (Forseti hringir.) samkvæmt lögum um opinber fjármál.