150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég tel þjóðkirkjuna mikilvæga fyrir íslenskt samfélag í fortíð, nútíð og framtíð. Hún er mikilvægur vitnisburður um það að við sem þjóð stöndum á sögulegum og menningarlegum grunni kristinnar trúar og gilda. Við eigum að standa vörð um þá arfleifð og áhrif hennar í íslensku samfélagi, arfleifð sem byggir á því að íslenskt samfélag og kristinn siður og gildi eigi nú sem fyrr samleið. Þess vegna fagna ég því samkomulagi milli ríkis og kirkju sem hér er til umfjöllunar. Markmið þess er að tryggja kirkjunni stóraukið fjárhagslegt sjálfstæði. Hér er um að ræða tímamót í samskiptum ríkis og kirkju og má í raun segja að hér sé stigið stórt skref í átt til sjálfstæðis hennar. Þannig verða t.d. prestar þjóðkirkjunnar ekki lengur ríkisstarfsmenn og kirkjan fær mun meira sjálfstæði í fjármálum sínum en verið hefur og hæstv. ráðherra rakti í ræðu sinni.

Þessi endurskoðaði samningur byggir á alveg nýrri hugsun sem skapar þjóðkirkjunni mikilvægt svigrúm til að endurskoða starfshætti sína í grundvallaratriðum og laga þá að aðstæðum á 21. öld. Frá sjónarhóli þjóðkirkjunnar hlýtur þetta að boða mikla og góða breytingu.

Áður en lengra er haldið er e.t.v. við hæfi að benda á að eftir sem áður stendur kirkjuskipunin að sjálfsögðu óhögguð og grundvallast á 62. gr. í stjórnarskránni. Ég lít svo á að þjóðkirkjuákvæðið feli í sér yfirlýsingu um grunngildi samfélagsins. Sá skilningur felur í sér að það sé í 62. gr. stjórnarskrárinnar sem við getum staðhæft að við séum kristin þjóð, getum haft kross í þjóðfána okkar og sungið Ó, guð vors lands. Vissulega eru til jafn kristnar þjóðir og við Íslendingar en sem hafa ekki sambærilegt þjóðkirkjuákvæði. Ákvæðið er mikilvæg yfirlýsing að mínu mati, yfirlýsing þjóðar sem hefur búið í harðbýlu landi í návígi við náttúruna, náttúruöflin og verið kristin í meira en 1000 ár. Ég er því ekki sammála hæstv. ráðherra um að það sé óhjákvæmilegt að endurskoða þetta ákvæði. Samfylgd kirkju og þjóðar hvílir ekki á stjórnarskrárákvæðinu einu saman heldur er hún lifandi og byggist m.a. á hefðum og venjum. Má nefna sem dæmi guðsþjónustu í Dómkirkjunni fyrir þingsetningu. Það má benda á að óvíða hefur trúfrelsi og umburðarlyndi skotið jafn djúpum rótum og meðal þeirra þjóða þar sem þjóðkirkjufyrirkomulag hefur verið við lýði. Ísland er gott dæmi þar um. Rök hníga að því að þær dyggðir hafi notið þess að vaxa upp í skjóli breiðrar og umburðarlyndrar þjóðkirkju. Þjóðkirkju- eða ríkiskirkjuskipun er við lýði í Evrópu í sumum löndum og íslenska stjórnarskrárákvæðið um efnið er rakið til dönsku stjórnarskrárinnar þar sem efnislega samhljóða ákvæði stendur enn í dönsku stjórnarskránni frá 1953. Þetta fyrirkomulag hefur Hæstiréttur Íslands talið samræmast trúfrelsis- og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur fullgilt, svo lengi sem það skerðir ekki rétt manna til að aðhyllast aðra trú, stofna trúfélög eða standa utan þjóðkirkju og trúfélaga og einstaklingum er ekki mismunað af þeirri ástæðu.

Staða norsku kirkjunnar var einfölduð til muna fyrir nokkrum árum. Stigið var frá eindregnu ríkisfyrirkomulagi og staða annarra trúfélaga bætt til muna. Engu að síður var vilji til þess að kveðið væri á um norska þjóðkirkju og var það umfram allt gert á menningar- og sögulegum forsendum. Ákvæði í stjórnarskrá um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi hefur í för með sér að þjóðkirkjunni er fengið hlutverk sem hluta af stjórnarskrárbundinni þjóðfélagsskipan. Í 62. gr. stjórnarskrárinnar segir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Þessu má breyta með lögum sem er undantekning frá því sem almennt gildir um stjórnarskrárbreytingar. Sú sérregla gildir þó samkvæmt 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar að breytingar á kirkjuskipun ríkisins eru háðar samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er því þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að fella niður þjóðkirkjuákvæðið án þess að leggja þá ákvörðun í bindandi þjóðaratkvæði í samræmi við 2. mgr. 79. gr. þar sem það, eins og áður segir, feli í sér breytta kirkjuskipun.

Íslendingar tóku þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá árið 2012. Þar var m.a. spurt um stöðu þjóðkirkjunnar og vildi meiri hluti þjóðarinnar hafa ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskrá. Þessi niðurstaða er ánægjuleg að mínu mati og hún er mikilvægt leiðarljós. Ég tel að ráðherra verði að horfa til þess þegar hann hefur tjáð sig þess efnis að óhjákvæmilegt sé að gerðar verði breytingar á þessu ákvæði til framtíðar. Það er fyrst og fremst þjóðin sem ræður því og þjóðin hefur sagt sinn vilja hvað þetta varðar. Nauðsynlegt er að endurskoða núgildandi þjóðkirkjulög, nr. 78/1997, svo markmið þess samkomulags sem við ræðum hér nái fram að ganga. Þjóðkirkjulögin eru of bindandi og gera kirkjunni erfitt fyrir að nýta sem best það nýja frelsi sem felst í þessu samkomulagi.

Við endurskoðun þjóðkirkjulaganna þarf að hafa í huga svokallaðan kirkjuskilning en um hann hefur m.a. dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands, fjallað. Í umfjöllun hans kemur fram að með hugtakinu kirkjuskilningi sé átt við svar við spurningunni: Hvað vill þjóðkirkjan vera í nánustu framtíð? Vill hún vera sjálfstætt trúfélag á evangelískum lúterskum grunni? Ég tek undir það með dr. Hjalta Hugasyni þegar hann segir:

„Vonandi kemur hún ekki til með að sniðganga frelsið sem í nýja kirkjujarðasamkomulaginu felst …“

Guðfræðiprófessorinn og kirkjusögufræðingurinn veltir því síðan fyrir sér hvort kirkjan geti áfram verið þjóðkirkja. Á hverju sem veltur um tengsl þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið skiptir mestu að hún haldi lifandi og virkum tengslum við þjóðkirkjuna og skal heils hugar tekið undir það með dr. Hjalta Hugasyni. Ef kirkjan nýtur trausts fólksins í landinu, ef það heldur áfram að leita til hennar út frá eigin fjölbreyttu forsendum í skini og skúrum hins daglega lífs, ef það merkir að hún miðli boðskap sem hefur gildi í breytilegum aðstæðum hversdagsins og gagnvart áskorunum framtíðarinnar, verður evangelíska lúterska kirkjan áfram þjóðkirkja, hvernig sem laga- og stjórnskipulegri stöðu hennar er háttað, og að þessu hlýtur kirkjan að keppa.

Ný þjóðkirkjulög þurfa því að vera einföld og sveigjanleg og tryggja kirkjunni umfram allt sem mest sjálfstæði og sjálfræði um hvernig hún byggir upp stjórnkerfi sitt og þróar starfshætti sína við síbreytilegar aðstæður. Í þessu efni mega þunglamaleg lög, ef svo má að orði komast, ekki binda hendur hennar og standa í vegi fyrir þróunarstarfi, m.a. því hvernig kirkjan skilgreinir störf og stöður innan sinna vébanda.

Í framtíðinni hlýtur að skipta máli að kirkjan hafi á að skipa fjölbreyttum hópi fólks með mismunandi menntun, reynslu og þjálfun til að mæta þeim fjölbreyttu áskorunum sem hennar hljóta að bíða. Kirkjan verður að þróast úr stofnun yfir í söfnuð eins og Lúther keppti að á sinni tíð. Þrátt fyrir að mikið ríði á að þjóðkirkjan öðlist sem mest fjárhagslegt og lagalegt frelsi til að þróa sveigjanlega starfshætti út frá sinni eigin sjálfsmynd eða kirkjuskilningi er það þó svo að nýja kirkjujarðasamkomulagið kallar á ákveðna stofnanavæðingu innan kirkjunnar, ef svo má að orði komast, á einu afmörkuðu sviði en það lýtur að stjórn fjármála. Í framtíðinni hlýtur kirkjuþing, æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, að fara með fjárveitingavaldið í kirkjunni líkt og það gerir nú þegar. Til að verða fært til þess þarf að byggja upp trausta framkvæmdastjórn sem heyrir undir þingið, þ.e. kirkjuþing. Eitt fyrst verkefni hennar hlýtur að vera að þróa líkan til þess að leggja til grundvallar við skiptingu þeirra fjármuna sem úr verður að spila milli hinna ýmsu starfseininga kirkjunnar þar sem gætt sé gagnsæis, faglegra sjónarmiða og ráðdeildar.

Eitt af hlutverkum þessarar framkvæmdastjórnar hlýtur að vera að semja um kaup og kjör við starfsmenn þjóðkirkjunnar, bæði vígða og óvígða. Hún verður því að hafa armslengdarfjarlægð, eins og það er orðað hjá dr. Hjalta Hugasyni, frá hinni vígðu yfirstjórn kirkjunnar og njóta frelsis gagnvart henni. Við endurskoðun þjóðkirkjulaganna skiptir því miklu að búa vel um hnútana á þessu sviði en koma jafnframt í veg fyrir spennu milli framkvæmdastjórnar eða framkvæmdastjóra kirkjunnar og biskupsembættisins, svo dæmi sé tekið. Framkvæmdastjórinn verður að virða guðfræðileg sjónarmið og hin vígða forysta fjárhagsleg rök til þess að samvinnan gangi smurt þrátt fyrir þau menningarlegu mæri sem oft virðast liggja milli þessara tveggja heima, hugrænna og hagrænna. Þá þarf kláran kirkjuskilning til að allir stefni í sömu átt. Ljóst er að kirkjuþings bíða mörg krefjandi verkefni á komandi misserum til að vinna úr þeirri nýju stöðu sem upp er komin í kjölfar þessa nýja samkomulags. Þar skiptir endurskoðun og einföldun þjóðkirkjulaganna mestu máli eins og ég nefndi fyrr.

Herra forseti. Sumir þingmenn sjá ofsjónum yfir kirkjujarðasamkomulaginu sem er grundvöllur þess samkomulags sem hér er til umræðu. Auk þess liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga um fullan aðskilnað ríkis og kirkju frá nokkrum þingmönnum. Kirkjujarðasamkomulagið hefur ekkert með stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskránni að gera. Hér er um lögvarinn samning að ræða sem kirkjan og ríkið gerðu með sér á grundvelli kirkjueigna. Með samkomulaginu frá 1907 fékk ríkið umsjón með jarðeignum kirkjunnar sem átti þá 25% alls lands. Árið 1997 fékk ríkið síðan jarðirnar til eignar. Þjóðkirkjan afhenti ríkinu jarðeignir sínar gegn endurgjaldi í formi launa til tiltekins fjölda presta og starfsmanna. Þetta samkomulag stendur óhaggað og er staðfest í þessu viðbótarsamkomulagi. Hið sama má segja um sóknargjöldin, félagsgjöld þjóðkirkjunnar, og aðra megintekjustofna hennar. Þau standa ekki í beinum tengslum við stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna. Ríkið innheimtir sóknargjöldin fyrir þjóðkirkjuna með sama hætti og gert er fyrir önnur trúfélög í landinu. Eins og áður segir felur þetta samkomulag í sér stórt skref til sjálfstæðis kirkjunnar.

Þjóðkirkjan er trúfélag og réttaraðili sem ber réttindi og skyldur að lögum. Þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja þótt hún tengist ríkinu með vissum hætti. Ólíkt því sem var fyrir árið 1997 stýrir þjóðkirkjan sér sjálf á grundvelli starfsreglna og reglugerða sem kirkjuþing, æðsta stjórnvald þjóðkirkjunnar, setur henni, ekki Alþingi eða ráðherra. Staða þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá hefur ekki áhrif þar á.

Herra forseti. Þjóðkirkjan hefur átt ríkulegan þátt í að móta og næra þá sögu og menningu sem íslenska þjóðin hefur um aldir staðið á. Hún er þjóðleg stofnun þar sem mætist gamalt og nýtt, fortíð og samtíð. Þjóðkirkjan ber uppi verðmætt starf og víðtæka þjónustu sem grundvallaðist á háleitum gildum og hugsjónum um samhjálp, samábyrgð og náungakærleika. Það er sannarlega mikils virði, herra forseti, og ég fagna þessu samkomulagi.