150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Hv. þingmaður fór aðeins út í það og sagði, ef ég skildi hann rétt, að það væru þjóðríki með þjóðkirkjufyrirkomulagi sem stæðu sig hvað best í umburðarlyndi gagnvart mismunandi trúarsannfæringu, trúfrelsi og þess háttar. Það er við svona tilefni sem ég vildi óska þess að við hefðum hérna græju til að geta skellt upp myndum af því að það er mjög fróðlegt að sjá kort af heiminum þar sem lönd eru lituð eftir því hver þeirra eru með einhvers konar ríkis- eða þjóðartrúarbrögð. Það eru Ísland, Danmörk, Noregur, Bretland og Grikkland og þar með er það upp talið í Evrópu, fyrir utan smáríki á borð við Liechtenstein, Mónakó, Möltu (Gripið fram í.) og Vatíkanið. Restin er ekki með þjóðkirkju. Það er ekki þjóðkirkja í Kanada, Bandaríkjunum og ekki þjóðkirkja í Mexíkó. Mér þykir nú frekar hæpið að ætla nokkurri Evrópuþjóð, hvað þá Íslandi eða Danmörku, að aðhyllast meira trúfrelsi og umburðarlyndi gagnvart mismunandi trúarbrögðum en t.d. Bandaríkjunum eða Kanada. Mér finnst það mjög hæpin fullyrðing, svo ekki sé meira sagt.

Hins vegar er náttúrlega nóg af þjóðkirkjum, ekki kirkjum reyndar en meintum þjóðartrúm, þ.e. raunverulega ríkistrúm, t.d. á stöðum eins og Egyptalandi, Líbíu, Sádi-Arabíu, Írak og víðar á þeim slóðum Það var þess vegna sem mig langaði að spyrja hv. þingmann: Ef ríkið myndi ákveða að selja einhverjum eign, segjum fasteign, segjum Stjórnarráðið, eða myndi kaupa eign af öðrum og þyrfti að greiða fyrir hana að eilífu ákveðið gjald til ákveðins fjölda fólks, bara eins og er í kirkjujarðasamkomulaginu, hvað myndi hv. þingmaður segja? Myndi hv. þingmaður gútera það undir nokkrum öðrum kringumstæðum? Er einhver önnur stofnun (Forseti hringir.) eða eitthvað annað í mannlegu samfélagi þar sem hv. þingmaður myndi sætta sig við þann fjármálagjörning gagnvart íslenskum skattgreiðendum?