150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð að segja að þessi fyrirspurn, ef má orða það þannig, eða þetta andsvar er bara útúrsnúningur. Þetta viðbótarsamkomulag byggist á hinu svokallaða kirkjujarðasamkomulagi. Það felur í sér, eins og ég rakti í ræðu minni og hv. þingmaður þekkir mætavel, að það voru lagðar til eignir. Jarðeignir sem voru í eigu kirkjunnar voru lagðar til ríkisins og fyrir það kom afgjald í staðinn, þ.e. að greiða laun presta. Þetta viðbótarsamkomulag sem við tölum um núna er bara framhald af því, greidd var ákveðin upphæð til kirkjunnar sem hún síðan núna kemur til með að sjá sjálf um, að ráða presta til vinnu o.s.frv. Þannig að þetta er ekki sambærilegt dæmi. Þú hlýtur að sjá það sjálfur að þarna eru lagðar til eignir, 25% lands hér á landi sem eru verulegar eignir, jarðeignir. Þetta kom í staðinn. Það er ekki hægt að setja þetta dæmi upp svona, hv. þingmaður. Þú hlýtur að sjá það sjálfur.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina orðum sínum til forseta.)