150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað á að vera ósambærilegt í þeim dæmum sem ég nefndi. Ég þekki það sem hv. þingmaður nefndi og það er það sem ég er að gagnrýna. Ég gagnrýni að þarna er tæmandi auðlind, nefnilega ákveðnar jarðir, afhent til eignar gegn óendanlega háu gjaldi, því að það sem hv. þingmaður nefnir ekki í sinni ræðu og virðist staðfastlega passa að nefna ekki er tíminn. Það er ekki svo að það sé verið að greiða laun presta í ákveðinn tíma á meðan verið er að borga af eignunum. Nei, upphæðirnar vara að eilífu, svo lengi sem drottinn gefur oss dag og nótt — svo ég leyfi mér að vera svolítið ljóðrænn. En ég er fullkomlega meðvitaður um fyrirkomulagið sem hv. þingmaður nefndi. Þess vegna spyr ég líka: Myndi hv. þingmaður sætta sig við að sami díll eða sambærilegur, með sömu einkennum samkvæmt lýsingu hv. þingmanns, væri gerður við eitthvert annað trúfélag, segjum Fríkirkjuna í Reykjavík eða lífsskoðunarfélag eins og Siðmennt (Forseti hringir.) eða einhverja mosku? Væri hv. þingmaður sáttur við það? Þættu honum það bara eðlileg viðskipti af hálfu ríkisins að borga óendanlega hátt verð fyrir tæmandi auðlind eins og land?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og minnir á orðið samkomulag.)