150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að hv. þingmaður notar orðið þjónusta og telur upp ýmsa þjónustu. Hann sagði í ræðu sinni að Ísland væri rosalega kristin þjóð. Nú hefur samkvæmt mælingum aðild að þjóðkirkjunni minnkað um 25 prósentustig frá 1998 til 2019, þ.e. ekki 25% heldur 25 prósentustig af heild. Aðeins 46% landsmanna telja sig trúaða samkvæmt greiningu frá 2015 og samkvæmt sömu greiningu segjast 0% undir 25 ára aldri eiga samleið með þjóðkirkjunni. Allt þetta fólk, það sem var undir 25 ára aldri þá, verður væntanlega þrítugt á komandi ári. Mig langar til að fylgja aðeins eftir spurningu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar varðandi það hversu mikið er réttlætanlegt að borga fyrir þessa þjónustu. Hversu mikils virði er þjónusta sem fáir og fækkandi hópur fólks sækir í? Trúir hv. þingmaður því að núverandi fyrirkomulag ríkiskirkju — og þetta er kannski meira grundvallaratriði — hafi hjálpað ríkiskirkjunni eða takmarkað hana í að ná til stærri hóps fólks, að breiða út þjónustu sína, að veita hana og þar fram eftir götunum? Getur kirkjan eins og hún er rekin í dag starfað í núverandi mynd án þess að fá 4 milljarða kr., og rúmlega það, fyrirgreiðslu úr ríkissjóði á hverju ári á grundvelli samnings sem virðist aldrei ætla að taka enda, þrátt fyrir að væntanlega á einhverjum tímapunkti sé búið að greiða fyrir allar jarðirnar sem um ræðir?