150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig að í ansi mörgum byggðarlögum eru starfandi fleiri en einn söfnuður af einhverju tagi og langflestir þeirra búa ekki við þau kjör að fá þessar gríðarlegu upphæðir úr ríkissjóði samkvæmt einhverju samkomulagi upp á jarðeignir sem er hvergi til tæmandi listi yfir, svo ég viti til, og óvíst hversu mikils virði þær eru. En maður hefði haldið að úr því að t.d. aðventusöfnuðurinn, Fríkirkjan og fleiri geta starfað gætu kannski aðrar kirkjur gert það líka, svo ekki sé talað um söfnuði annarra trúarbragða.

Ég verð samt að halda mig við þetta vegna þess að það er minnkandi eftirspurn eftir þjóðkirkjunni. Þó svo að þessi könnun hafi talað um 0% undir 25 ára sjáum við það bara á öðrum tölum líka. (Forseti hringir.) Það að börn séu ekki lengur skráð í þjóðkirkjuna fyrir það eitt að hafa fæðst, væntanlega gegn vilja sínum og jafnvel vilja foreldra sinna, (Forseti hringir.) er eiginlega bara til að undirstrika punktinn. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta fari til lengri tíma litið?