150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem samnefndarmaður í fjárlaganefnd langaði mig til að nálgast þetta út frá því sjónarhorni. Nú er þjóðkirkjan að fá hérna 2,8, næstum því 2,9 milljarða, sérstaklega og svo fær hún u.þ.b. 2 milljarða í gegnum sóknargjöldin, hver sókn fyrir sig. Ég velti fyrir mér: Eru ekki aðrir söfnuðir sjálfstæðir? Af hverju þarf þjóðkirkjan þetta miklu meira til þess að halda sjálfstæði sínu? Ef við hunsum algerlega kirkjujarðasamkomulagið sem slíkt ætti þjóðkirkjan undir öllum öðrum kringumstæðum væntanlega að geta verið jafn sjálfstæð með bara sóknargjöldum og allir aðrir söfnuðir.

Í lögum um opinber fjármál er einmitt fjallað um samningagerð, með leyfi forseta, í 40. gr.:

„Í samningum um rekstrarverkefni samkvæmt þessari grein skal m.a. skilgreina umfang og gæði þeirrar starfsemi sem samningurinn tekur til, samningstíma, skilyrði fyrir samningsgreiðslum, eftirlit með framkvæmd þeirra og meðferð ágreiningsmála.“

Ekkert af þessu, nema kannski skilyrðið um meðferð ágreiningsmála, er uppfyllt í þessu viðbótarsamkomulagi og kirkjujarðasamkomulagi eins og það er. Nú var kirkjujarðasamkomulagið samþykkt í öðrum lögum en lög um opinber fjármál og allt í lagi með það. Það er endurskoðunarákvæði á því eftir 15 ár. Allt í lagi með þau ákvæði. En í nýjum lögum er bara fimm ára frestur. Samt er í viðbótarsamkomulaginu skilgreindur 15 ára samningsfrestur. Ég skil ekki hvernig það kemst til okkar utan þess sniðs sem lög um opinber fjármál setja ramma utan um.

Mig langar að fá aðeins álit þingmanns á þessu samkomulagi með tilliti til laga um opinber fjármál sem nefndarmaður í fjárlaganefnd.