150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir það eru samningsákvæði viðbótarsamkomulagsins eins og þau eru með 15 ára gildistíma en ekki fimm ára sem er hámarkið samkvæmt lögum um opinber fjármál þannig að maður klórar sér í hausnum og spyr sig: Það getur ekki verið að menn hafi haft lög um opinber fjármál til hliðsjónar.

Hv. þingmaður segir að þetta sé þjónustusamningur fyrir eignir og þá spyr ég náttúrlega strax: Afsakið, en hérna eru afhentar eignir sem hafa endanlegt verðmæti sem væntanlega er hægt að stemma af skuldbindingu gagnvart á einhverju tímabili. Kannski tekur það 100, 200 ár, hver veit. Hversu mikill hluti af því er undir í þessu viðbótarsamkomulagi eða kirkjujarðasamkomulagi yfirleitt og hversu mikið gildir þjónustusamningurinn gagnvart því? Það skiptir máli vegna þess eftirlits sem við veitum síðan í lögum um opinber fjármál um að það séu skilyrði við afhendingu á opinberu fé, skattfé. Svo erum við náttúrlega með lögin um sóknargjöldin þar sem er bara sagt: (Forseti hringir.) Gjörið svo vel. Þar er verið að innheimta fyrir sóknirnar sem slíkar og menn geta farið með það nokkurn veginn eins og þá lystir.