150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvað það eru margir milljarðar sem eiga að fara til kirkjunnar á ári samkvæmt þessu, 2,5 eða 3,5 eða eitthvað í þeim dúr. 53 milljarðar til að klára dæmið — mér finnst bara augljóst að við ættum að borga þá og klára málið. Það má alveg gera það á mörgum árum. Eins og ég fór yfir í ræðu minni finnst mér ekkert að því að hafa afborganir og vexti þess vegna — við sjáum til, ég ætla ekki að binda mig í því vegna þess að ég veit svo sem ekki hvað er eðlilegt í svona viðskiptum. Ef verðmiðinn er 53 milljarðar finnst mér það mjög lág upphæð miðað við það sem við munum borga samkvæmt hinu fyrirkomulaginu. Samkvæmt því er upphæðin óendanlega há. Við getum ímyndað okkur tíu sinnum 53 milljarða, sem er 530 milljarðar, eða 100 eða 1.000 sinnum eða milljón sinnum eða trilljón billjón skrilljón milljón skrilljón sinnum 53 milljarða — það er samt lægra en það sem við eigum að borga samkvæmt þessu vegna þess að sú skuldbinding er að eilífu, virðulegi forseti. 53 milljarðar eru vel viðráðanleg upphæð fyrir ríkissjóð, sér í lagi yfir nokkurra ára tímabil. Við höfum farið í hærri einskiptisgreiðslur en það á síðustu árum á Alþingi. Ef spurning hv. þingmanns er hvort ég væri til í að setja 53 milljarða í að klára dæmið er svarið alveg tvímælalaust og einart: Já, klárlega, engin spurning.