150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það kæmi hv. þingmanni á óvart ef hann vissi hversu mikið ég hef lesið Biblíuna, enda er það oft þannig sem fólk fer að fyllast (Gripið fram í.) efasemdum um það sem manni er kennt í æsku og sér í lagi í fermingarfræðslu, bara svo það sé sagt. Mér finnst reyndar almennt ekki við hæfi að trúarbrögð eða trúarsannfæring ráði ferðum á hinu háa Alþingi. Ég trúi á jafnræði fyrir lögum. Ég trúi á trúfrelsi og ég trúi á meiri hluta, hvort sem þeir eru grundvallaðir á kyni, kynþætti, trúarsannfæringu, stjórnmálasannfæringu eða hverju sem er. Ég trúi hins vegar ekki á að meiri hlutar eigi að sanka að sér sérstökum forréttindum fram yfir aðra, bara vegna þess að þeir eru í meiri hluta. (Gripið fram í: Forréttindi?) Auðvitað eru þetta forréttindi, virðulegi forseti, nema við séum ekki að tala um sama málið. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég lesi ekki nóg af trúarritum, ég bið hv. þingmann að spyrja mína ágætu konu um það. Kannski les ég aðeins of mikið af þeim ef eitthvað er en kannski ekki í þeim tilgangi að læra íslensku þótt reyndar sé áhugavert að bera saman íslenskuna (Gripið fram í.) á milli tiltekinna Biblíuútgáfna. Til dæmis er 2007-útgáfan mjög áhugaverð hvað það varðar og hvet ég hv. þingmann til að koma með mér einhvern tímann í kaffibolla og við skulum lesa Biblíuna og ræða íslenskuna í henni. Til er ég.