150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var sérstök. Hann ræddi um sérstök forréttindi, helgislepju, siðferðislega rangt, mismunun o.s.frv. Ég hvet hv. þingmann til að snúa sér frá slíkri brennandi reiði og heift í garð þessa samkomulags. Vonandi þarf hv. þingmaður ekki að reika um eyðimörkina í 40 ár.

Þjóðin hefur talað, hv. þingmaður. 2012 samþykkti þjóðin það og vildi að í stjórnarskrá væri sérstakt ákvæði um að ríkið myndi styðja og styrkja þjóðkirkjuna. Þetta verður hv. þingmaður að sætta sig við. Þetta er niðurstaða sem þjóðin komst að og við eigum að virða. Það samkomulag sem við erum að fjalla um hér byggir, svo ég nefni það enn og aftur, á tilfærslu eigna og hv. þingmaður verður að átta sig á því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er það ómálefnalegt að standa við samninga? Er ómálefnalegt að ríkissjóður standi við samninga sem það gerir? Það væri ágætt að hv. þingmaður myndi svara þessu.

Svo þykir mér ómálefnalegt að hv. þingmaður skemmti sér yfir því að það hafi fækkað í þjóðkirkjunni, eins og hann nefndi sérstaklega þegar hann sagði að svo skemmtilega vildi til að fækkað hefði í þjóðkirkjunni. Þetta er ómálefnalegur málflutningur, hv. þingmaður.