150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er farinn að snúa þessu við. Ég er ekki hér til andsvara. Það er trúfrelsi í landinu, hv. þingmaður, og það ríkir jafnræði í trúmálum hvað það varðar að sóknargjöldin eru á jafnræðisgrundvelli, þ.e. öll trúfélög fá sóknargjöld.

Hvaða minni hluta er hv. þingmaður að tala um? Sagði ekki meiri hluti þjóðarinnar skoðun sína og vildi styðja og styrkja þjóðkirkjuna? Ég átta mig ekki alveg á því hvaða minni hluta hv. þingmaður er að tala um í þessu sambandi. Hann ræðir líka um trúarsannfæringu, að við séum að styðja þetta mál vegna trúarsannfæringar. Þetta er samkomulag sem er búið að gera og við samninga á að standa, hv. þingmaður. Þetta er útfærsla á samkomulagi sem var gert 1997. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Liði honum betur ef hér væri verið að gera samkomulag við Siðmennt? Er það það sem hv. þingmaður er að tala um þegar hann talar um trúarsannfæringu? Er hann svona brennandi illur af því við höfum trúarsannfæringu og styðjum þetta þess vegna? Ég skil ekki alveg hv. þingmann þegar hann setur hlutina fram á þennan hátt.