150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal fylgja eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 ef hv. þingmaður er til í að koma með mér í það lið.

Ég hef ekki sagt að ekki sé trúfrelsi á Íslandi. Ég hef sagt að það sé ekki jafnræði í trúmálum, ég man reyndar ekki hvernig ég orðaði það nákvæmlega í hvert einasta sinn, en ég talaði áðan um jafnræði fyrir lögum og jafnræði borgaranna gagnvart því hvernig ríkisstjórnin semur við stofnanir úti í bæ.

Hv. þingmaður spurði hvort ég væri ekki pirraður yfir því að þetta samkomulag væri ekki við Siðmennt. Eins og ég hef farið yfir áður, reyndar ekki í ræðu í dag, væri ég alveg jafn æfur yfir sambærilegu samkomulagi við hvaða stofnun sem væri, hvort sem það væri Siðmennt eða einhver önnur stofnun. Siðmennt þiggur svokölluð sóknargjöld og ég er á móti því. Ég vil afnema það fyrirkomulag. Ég er þeirrar skoðunar vegna þess að mín afstaða til þess hvernig lögin eiga að vera í landinu og hvert hlutverk ríkisins er er óháð trúarsannfæringu minni eða lífsskoðunarsannfæringu. Þetta er tvennt ólíkt. Mér tekst mjög auðveldlega (Forseti hringir.) að aðskilja þetta tvennt. Hins vegar finnst mér augljóst að þetta hábölvaða og fáránlega samkomulag frá 1997 hefði aldrei verið samþykkt ef ekki hefði verið fyrir trúarsannfæringu þeirra þingmanna sem stóðu að því að samþykkja það. Ég tel það bara og kannski er það rangt, vonandi er það rangt, en ég fæ ekki betur séð en að það sé því miður rétt.