150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

svar við fyrirspurn.

[15:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Á morgun, á næstsíðasta degi fyrir jólahlé þingsins, verður mánuður liðinn frá því að sá sem hér stendur lagði fram í sjötta sinn fyrirspurn um sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs. Svar hefur enn ekki borist. Eins og ég segi var þessi fyrirspurn þá lögð fram í sjötta sinn. Hún hefur verið lögð fyrir félags- og barnamálaráðherra og nú er hún lögð fyrir dómsmálaráðherra. Þessir tveir ráðherrar hafa kosið að hunsa þingið gjörsamlega með því að svara ekki fyrirspurninni. Það er líklega eitt og hálft til tvö ár frá því að hún kom fram fyrst.

Ég verð að segja, herra forseti, að þetta er algjörlega ólíðandi framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Ég heiti á forseta að sjá til þess að þessari fyrirspurn verði svarað áður en þingið fer í jólaleyfi og að hún týnist ekki í jólabókaflóðinu. Þess vegna legg ég svo á og mæli um við forseta og bið hann um liðsinni enn einu sinni (Forseti hringir.) að hann hjálpi til við að þessari fyrirspurn verði svarað.