150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sá veðurofsi sem við landsmenn erum að upplifa þessa dagana sýnir okkur hve mikilvægt það er að tryggja afhendingaröryggi rafmagns og hafa öflugt flutningskerfi. Á höfuðborgarsvæðinu hafa menn kannski ekki áhyggjur af því að rafmagn detti út heldur aðrar áhyggjur sem skiljanlegt er, að komast á milli staða, en víða á landsbyggðinni er staðan öðruvísi. Rafmagn fer út í langan tíma og treysta þarf á varaafl í dísilstöðvum víða um land, bæði á Vestfjörðum og á Norðurlandi.

Okkur verður oft tíðrætt um mikilvægi þess að byggja upp flutningskerfi raforku. Það er mikilvægt að nýta betur þá orku sem er í einangruðum hlutum kerfisins en það er einnig mikilvægt til þess að auka afhendingaröryggi rafmagns fyrir landsmenn. Starfsmenn raforkufyrirtækja á borð við Rarik og Orkubú Vestfjarða vinna ásamt öðrum viðbragðsaðilum, lögreglu, björgunarsveitum og fleirum, oft kraftaverk við erfiðar aðstæður, gera við gamlar byggðalínur sem þola hvorki ísingu né snjó og þessi vinna er oftast nær unnin í myrkri og byl og upp til fjalla við hættulegar aðstæður. Það er mikilvægt að dreifikerfin þoli álag svo ekki þurfi að senda fólk í stórhættulegar aðstæður til að geta tryggt að það sé rafmagn í heilu byggðarlögunum. Til þess þarf að bæta tengingar. Í einhverjum tilvikum getur þurft að skoða að setja byggðalínur í jörðu og hringtengja svæði og þannig nýtum við raforkuna á hagkvæmari hátt og aukum öryggi notenda.

Aðalmálið er að við þurfum að tryggja raforkuöryggi til allra landsmanna, afhendingaröryggi rafmagns hvar sem er á landinu. Þessi veðurofsi minnir okkur á hversu brýnt það er að við tryggjum fjármagn til að byggja upp flutningskerfið.