150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég hef setið á Alþingi Íslendinga í rétt rúmlega þrjú ár og mér verður oft hugsað til starfa þingsins eða skilvirkni í störfum þingsins og hvernig við gætum nýtt tíma okkar betur til að sinna því mikilvæga hlutverki sem ég veit að allir þingmenn sem hér sitja hafa ríkan vilja til að sinna. Nú fer í hönd sá tími sem venjulega liggur lífið á að ljúka málum sem oft eru mjög seint fram komin og illa undirbúin og lítill tími til að bæta þar úr því að þeim þarf að ljúka fyrir áramót. Þetta virðist vera nokkuð föst venja þingsins, bæði um jól og að vori.

Það er og margt að mínu viti sem við gætum gert hér í þessum sal og í samstarfi við framkvæmdarvaldið til að bæta þar verulega úr. Í fyrsta lagi væri til mikils að vinna að efla traust milli meiri hluta og minni hluta á þingi. Mikið af því reiptogi sem á sér stað undir þingfrestun, bæði að vori og um jól, grundvallast á djúpu, langvarandi vantrausti á milli aðila sem ég held að við öll gætum lagt okkur fram um að bæta úr. Að mörgu mætti huga í þingsköpum, að stytta og gera ræðutíma markvissari, eyða ekki löngum tíma í umræður um mál sem við erum kannski í heildina sammála um en ráðstafa nauðsynlegum tíma, bæði í umræður hér í sal og vinnslu í nefndum, sem er ekki síður mikilvægt, um þau mál sem mikill ágreiningur getur ríkt um.

Ég held að það væri mikið til unnið að við settumst yfir það að bæta hér úr og bæta vinnuumhverfi okkar, bæta skilvirkni þingsins og hvernig við nýtum tímann innan þings og utan en ekki síst að tryggja að vandað sé til þeirrar mikilvægu vinnu sem er hér unnin og að gefinn sé til hennar nægur tími, ekki hvað síst í nefndunum þar sem hvað mikilvægasta vinnan fer fram. (Forseti hringir.) Það væri óskandi að sjá raunverulegar breytingar verða á þessu en ekki bara ítrekaðar umræður og hefðbundið reiptog og rifrildi þegar kemur að þessum tímapunkti í störfum þings.