150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á veðrinu sem hefur gengið yfir landið. Grafalvarleg staða er víða um land, rafmagnsleysi, fjarskiptaleysi, slæm færð á vegum og veðurhæð mikil. Óvenjuleg veðurhæð, mikil ofankoma og hitastig hefur allt unnið saman að því að gera ástandið alvarlegt, sérstaklega hvað varðar flutningslínur rafmagns. Í Skagafirði hefur verið rafmagnslaust í sólarhring. Truflun á fjarskiptasambandi á Norðurlandi vestra er verulegt áhyggjuefni. Óveðrið er enn að störfum líkt og allt okkar frábæra fólk. Lögregla, starfsmenn dreifiveitna, björgunarsveitarfólk og fleiri vinna mikilvæg störf um allt land. Fyrir það megum við vera þakklát.

Ég ætlaði reyndar að tala um tolla. Við tölum oft um að tollar á innflutta matvöru séu séríslenskt fyrirbæri eins og Grýla og Leppalúði. En er það svo? Nei, við tollum ákveðnar vörur eins og önnur lönd. Tollvernd er íslenskri framleiðslu mikilvæg og er henni stuðningur til að standast samkeppni við innflutning frá löndum þar sem mikill stuðningur er jafnvel í öðru formi við slíka framleiðslu. Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða er misjöfn sem og hlutfallslegir yfirburðir. Ísland er ekki auðvelt til útiræktunar á grænmeti. Við höfum hreint vatn og hreina orku en framleiðsluferlið er nokkuð dýrt.

Þá er ótalinn einn stærsti þátturinn sem er launakostnaður. Íslensk stjórnvöld vilja hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum minnka kolefnissporið og því kaupum við innlenda framleiðslu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir vinna við matvælaframleiðslu hér á landi. Það fólk borgar skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda framleiðslustarfsemi sína hér. Erlend fyrirtæki sem framleiða matvöru erlendis borga ekki þessa skatta hér á landi og þau skapa ekki störf fyrir fólkið á Húsavík og Hvammstanga.