150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:41]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Foreldrahlutverkið er ábyrgðarmesta hlutverk í heimi. Það er foreldra að veita börnum öryggi, ást og viðurkenningu. En hvað ef foreldrar bregðast þessu hlutverki? Ísland fullgilti barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt:

„Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Hins vegar koma alvarleg mál allt of oft upp í tengslum við barnavernd og því ljóst að því mikilvæga hlutverki að vernda börn er því miður ekki alltaf sinnt. Hver grípur inn í og verndar barnið? Það liggur í augum uppi að það á að vera barnaverndin. Samkvæmt barnaverndarlögum er hlutverk Barnaverndarstofu vel skilgreint, bæði hvað varðar eftirlit og úrræði. Hins vegar virðast kröfur til nefndarmanna í barnaverndarnefndum vera opnar. Þar segir að nefndarmenn skuli „vera kunnir að grandvarleik og bera gott skyn á mál þau sem barnaverndarnefnd fjallar um“. Einnig á að leitast eftir að fólk með sérþekkingu á málefnum barna og lögfræðingur séu í nefndinni.

Herra forseti. Ef þessum kröfum er raunverulega fylgt eftir, hvernig geta þá komið upp mál líkt og Seltjarnarnesmálið sem rætt hefur verið um í fjölmiðlum? Staðreyndin er að þessar kröfur eru heldur ekki nægilega miklar. Ef við berum saman þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem sitja í stjórnum fjármálastofnana annars vegar og barnaverndarnefnda hins vegar virðist sem okkur sé meira annt um peninga en börn. Ég er hér ekki að gera lítið úr eftirlitshlutverki Fjármálaeftirlitsins heldur benda á að sömu kröfur ætti að gera til þeirra sem sitja í nefndum barnaverndar. Barnaverndarnefndir gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki og við verðum að gera kröfu til þeirra því að það eru þær sem hafa lokaorðið um velferð barna sem eiga erfitt og þurfa hjálp.