150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[15:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því þegar reynt er að hagræða í ríkisrekstri og er mikill stuðningsmaður þess. Þetta mál er illa unnið. Það er gert í flaustri. Það er gert án samráðs við eina af þeim stéttum sem eiga að vinna eftir lögunum í framtíðinni. Ég hef mestar áhyggjur af því að hlutur tollgæslu á landamærum verði ekki eins og best verði á kosið eftir þessa sameiningu. Ég hef áhyggjur af því vegna þess líka að Miðflokkurinn hefur ítrekað lagt fram tillögur til þess að efla tollgæslu á landamærum án þess að því hafi verið sinnt. Hæstv. fjármálaráðherra og hans lið hafa fellt allar þær tillögur þótt þær hafi verið skynsamlegar og fullfjármagnaðar. Af þessari ástæðu, af því að ég hef áhyggjur af tollgæslu á landamærum eftir sameiningu, get ég ekki stutt þetta frumvarp.