150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:14]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ólíkt öðrum ræðumönnum talaði hv. þingmaður eitthvað um frumvarpið en ekki bara um eitthvað annað og gamalt. Út af vangaveltum um að þetta sé ekki nægur tími: Ég er ekki að verja það. Ég vildi hafa betri tíma. En í mínum huga er þetta mjög einfalt. Það er bara verið að skera á þessi tengsl, starfsmenn kirkjunnar verða ekki embættismenn. Til þess þarf ekki mikinn tíma í mínum huga. En varðandi stjórnsýslulögin er það þannig í þessu eins og öllu öðru að við vitum ekki alltaf hvernig háttar til hjá aðilum sem teljast ekki ríkisstarfsmenn, opinberir starfsmenn. Sumar ákvarðanir þeirra geta heyrt undir stjórnsýslulög. Við þekkjum þetta í kringum Landsnet. Þeim er stundum falið sérstakt verkefni sem lýtur lögum. Það fer eftir lögum um viðkomandi stofnun eða félag. En við fáum aldrei botn í það nákvæmlega hvaða ákvarðanir geta talist stjórnsýsluákvarðanir í þeim skilningi. Það er metið hverju sinni, væntanlega.

Svo vil ég sérstaklega þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það sem aðrir hafa ekki gert hér í ræðu áður, hvaða starfsemi fer fram í þjóðkirkjunni og þær skyldur sem þjóðkirkjan hefur umfram alla aðra söfnuði. Það skiptir engu máli í hvaða söfnuði eldri borgarar eru sem kirkjan aðstoðar. Þeim er öllum sinnt. Þetta er gífurlega mikið starf sem ég vissi ekki af þegar ég var ungur maður og vildi auðvitað bara aðskilnað ríkis og kirkju og vildi bara algerlega útiloka þetta. Mín afstaða breytist mjög (Forseti hringir.) þegar ég kynnist starfsemi þjóðkirkjunnar og fleiri kristinna söfnuði sem maður þekkir til. Frábær og göfug starfsemi.