150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar maður skoðar þennan viðbótarsamning nánar er þetta í rauninni samningur um launagreiðslur. Þetta frumvarp sem slíkt er einmitt fyrirkomulagið á því hvar og hvernig launin eru greidd o.s.frv. Það er mjög eðlilegt að tala í dálítið víðu samhengi um viðbótarsamkomulagið og kirkjujarðasamkomulagið og allt sem þar undir liggur því þegar allt kemur til alls er kirkjujarðasamkomulagið og forveri þess, alveg frá 1907, vesen með laun presta. Það er tiltekið í greinargerð með lögum um breytingu á kirkjuskipan árið 1907 að tilgangur þeirrar lagasetningar sé að hækka laun presta. Þar áttu eignirnar að liggja undir og ríkið tók í rauninni ábyrgð á því að borga mismuninn, ef einhver yrði — sem varð síðan því að eignirnar stóðu ekki undir launagreiðslum prestanna þegar allt kom til alls. Þegar maður pælir í þessu út frá því sjónarhorni, er þá ekki einmitt eðlilegt að tala um viðbótarsamkomulagið í heild sinni þegar talað er um nákvæmlega þetta frumvarp?