150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tölum aðeins um þennan höfuðstól. Í greinargerð kirkjueignanefndar um kirkjueignir á Íslandi frá 1597–1984 er farið rosalega ítarlega í efnið og það fóru mörg ár í þessa greiningu, í að rekja allar eignir kirkjunnar frá 1597 — það var tekinn hæfilega stuttur tími eftir siðaskiptin af því að það var ákveðin óreiða í gangi. Lokaafurðin var sem sagt sannanlega allar eignir kirkjunnar. Þær voru fasteignametnar og þeim skipt á milli kirkju, ábúenda — þeirra sem áttu jörðina — og síðan í sameign þar á milli. Það var metið hver kirkjujarðahlunnindin voru, hvað heyrði til hússins og hvað síðan ræktunarinnar. Því var öllu skipt mjög vel niður. Sú upphæð endar alls fyrir allt landið í rétt rúmum milljarði, eða 1.072.774.128 kr. Nú er það einfaldlega þannig að við vitum að eignir og jarðir seljast kannski á ögn hærra verði heldur en fasteignamat en aldrei (Forseti hringir.) er sá stjarnfræðilegi munur sem hv. þingmaður virðist ýja að.