150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Síðustu daga hefur staðið yfir mjög áhugaverð umræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en um er að ræða viðbótarsamning íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Mig langar að byrja á því að vera með smáleiðindi og vona að ég fái ekki mikið baul úr þingsal fyrir að nefna að tímasetning á framlagningu þessa máls og tímasetning 1. umr. þess er enn eitt dæmið um það hvernig ríkisstjórnin kemur fram við Alþingi Íslendinga. Ætlast er til að Alþingi Íslendinga sé einhvers konar stimpilpúði á mál sem koma frá ríkisstjórninni, sum vel unnin en önnur mjög illa unnin, það verður að segjast eins og er.

Miðað við þann umsagnafjölda sem við fáum í einstaka málum sem við eigum að afgreiða fyrir jól, þ.e. önnur mál, verður að segjast eins og er að þessi vinnubrögð eru forkastanleg. Það sem gerist þegar við fáum mál eins og þetta, sem ég held að sé að mörgu leyti mjög brýnt og gott, er að maður fyllist tortryggni. Þá hugsar maður: Jæja, hvað er nú? Hvað er hér á seyði? Hvernig stendur á því að mál sem byggist á samkomulagi sem gert var 6. september er að detta inn í 1. umr. rétt fyrir þinghlé? Hvað er verið að fela? Hvers vegna má ekki ræða málið með fullnægjandi hætti? Hvers vegna fær það ekki fullnægjandi meðferð í fastanefnd Alþingis? Hvers vegna vill ríkisstjórnin ekki að fastanefndir Alþingis vinni málið þannig að sú nefnd sem fær það til sín hafi tíma til að kalla til sín gesti, hafi tíma til að ræða það, hafi tíma til að skoða nýjar og gamlar umsagnir o.s.frv.?

Aftur segi ég: Það er örugglega margt gott í þessu máli en sitt sýnist hverjum, það er greinilegt af því að þingmenn þurfa mikið að ræða það. En um það getum við ekki vitað og við munum ekki komast að því áður en meiri hlutinn keyrir þetta mál í gegn. Meiri hlutinn hefur í krafti lýðræðisins vald til að gera nákvæmlega það sem honum sýnist. Eftir stendur að ríkissjóður þarf að borga fyrir tjónið, ef tjón verður í það og það skiptið. Við höfum heldur betur fengið afleiðingarnar af því hingað inn þegar við sjáum fram á að þurfa að setja 5 milljarða hér og 800 milljónir þar o.s.frv. vegna ófullnægjandi lagasetningar í þingsal.

Ég verð því að segja enn einu sinni að ég verð fyrir djúpum vonbrigðum með að gert skuli ráð fyrir því að þetta mál, sem er hér í 1. umr. 11. desember, tveimur dögum fyrir áætluð þinglok, eigi nú að fara til allsherjar- og menntamálanefndar, væntanlega, til umfjöllunar og fá þar sinn þriggja vikna hefðbundna umsagnarfrest — eða hvað? — og koma að því loknu aftur í þingsal til 2. umr., fara hugsanlega aftur til nefndar og svo í 3. umr. En þá er auðvitað komið nýtt ár og allir löngu farnir í jólafrí. Það er alveg fyrirséð að þetta frumvarp til laga, um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem hefur veruleg áhrif á alla starfandi presta þjóðkirkjunnar, verður a.m.k. ekki hægt að bera undir þann hóp sem málið varðar og mér þykir það miður. Vissulega er þjóðkirkjan hluti af þessu samkomulagi en það kann að vera að þeir sem eiga sitt þarna undir vilji leggja orð í belg, vilji skila inn umsögn eða eitthvað slíkt. Því miður býður ríkisstjórnin ekki upp á slík vinnubrögð á Alþingi, hún býður upp á það að enn eitt málið verði keyrt í gegn án faglegrar umræðu.

En aðeins að þessu máli: Kirkjan skal, eftir meðferð þessa máls og eftir samþykkt Alþingis, bera ábyrgð á starfsmönnum sínum, hvernig fer með kaup og kjör þeirra. Maður veltir fyrir sér, þrátt fyrir að samkomulag hafi verið gert 6. september, af hverju þetta verður að taka gildi 1. janúar 2020. Ef ríkisstjórnin getur ekki skilað inn fullnægjandi máli fyrir 1. janúar 2020, ef hún treystir sér ekki til að ljúka afgreiðslu málsins á þingi fyrir þann tíma, er þá ekki bara rétt að láta viðsemjendur vita af því að töf geti orðið, að lögin geti ekki tekið gildi 1. janúar 2020? Það er líka hægt að gera eins og hæstv. félagsmálaráðherra og segja: Við segjum vissulega í frumvarpinu að það eigi að taka gildi 1. janúar 2020 en það er enginn að segja að það þurfi að vera búið að afgreiða málið fyrir 1. janúar 2020, eins og gerðist í umræðu hér um daginn. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki betra fyrir málið að það verði unnið faglega í þinginu. Alþingi Íslendinga er jú löggjafinn en ekki framkvæmdarvaldið, ekki ráðherrar, ekki ráðuneytisstarfsmenn og ekki hin svokallaða samráðsgátt. Nú var ég ekki búin að gá hvort þetta mál hefði legið lengi í samráðsgátt og veit ekki hvort umsagnir komu þar inn. En þar er um að ræða samráð sem á sér stað úti í bæ. Það breytir því ekki að Alþingi þarf engu að síður að kanna hug þeirra sem málið varðar til þessa máls, eða ætti að gera það en getur það ekki á þessum tímapunkti.

Mikið hefur verið fjallað um það hvort fara eigi í fullan aðskilnað ríkis og kirkju og sitt sýnist hverjum um það. Ég er meðflutningsmaður á þingsályktunartillögu sem leggur til fullan aðskilnað ríkis og kirkju og verð af því tilefni að benda á að í Noregi hefur sú leið verið farin. Þann 1. janúar 2017 breyttu Norðmenn einmitt lögum um sína þjóðkirkju þannig að 1.250 prestar og biskupar voru ekki lengur opinberir starfsmenn og norska kirkjan varð við það sjálfstæð eining. Þetta var samþykkt í norska Stórþinginu. Nú höfum við mikið horft þangað í gegnum tíðina og ég er ekki viss um að þetta hafi haft neikvæð áhrif á þjóðina heldur þvert á móti. Ég held að það sé betra fyrir kirkjuna, sem ég held að sé ágæt stofnun, að sjálfstæði hennar sé aukið.

Mig langar af þessu tilefni að velta því upp hvort hugtakið þjóðkirkja sé mögulega rangnefni á þessari stofnun. Nú erum við í raun að fara úr því að hún sé ríkiskirkja, hún hefur verið ríkiskirkja. Ég er að velta fyrir mér hvort hún ætti kannski frekar að heita kirkja fólksins eða fólkskirkja í staðinn fyrir þjóðkirkja. Það hefur fækkað jafnt og þétt í þessari ríkiskirkju undanfarin ár og þá veltir maður fyrir sér hvort ekki sé rétt, af því að það hefur jú verið umdeilt hver talar fyrir þjóðina, að kirkjan taki sér ekki það bessaleyfi að segjast vera kirkja þjóðar þegar hún er í raun aðeins kirkja hluta landsmanna. Ég myndi halda að það væri meiri auðmýkt í því að tala um kirkju fólksins. Það er afmarkaðra mengi en þjóðkirkjan sem er í raun miklu stærra mengi og á við alla þjóðina. Ég held að það sé kannski það sem við ættum að vera að ræða hér samhliða þessu, hvort ekki væri rétt að breyta nafninu.

Ég ætla ekki að fara djúpt inn í umræðuna um aðskilnað ríkis og kirkju að þessu sinni en segi aftur: Nú er verið að aðskilja ríkið og presta þjóðkirkjunnar. Við það vakna nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi sú spurning hvort það sé skaðlegt að þetta mál fái faglega meðferð í þinginu. Einnig má spyrja, þegar prestar verða ekki lengur opinberir starfsmenn heldur starfsmenn hinnar sjálfstæðu kirkju, hvort stjórnsýslulögin gildi þá um þessa starfsmenn, hvernig fari með þá og hvort þeir þurfi að lúta stjórnsýslulögum og hvort lög um opinbera starfsmenn gildi. Ég held að það sé reyndar sagt í greinargerðinni að svo sé ekki. En alla vega velti ég því upp með stjórnsýslulögin hvort þjóðkirkjan verður það sjálfstæð og hvort við horfum jafnvel fram á að hún verði algjörlega sjálfstæð eining á endanum.

Annars sé ég ekki annað en að við styðjum þetta mál enda aðhyllumst við í Samfylkingunni flest hver að sjálfstæði kirkju fólksins, þjóðkirkjunnar eins og hún heitir í dag, verði aukið.