150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég verð að taka undir að þarna eru fjölmargar spurningar sem er algjörlega á huldu með hvernig á að svara. Þegar hv. þingmaður segir að þetta frumvarp sé í rauninni launasamningur átta ég mig ekki alveg á því. (Gripið fram í.) Frumvarpið sjálft vísar vissulega í samkomulag en það breytir samt sem áður öðrum lögum þó að það vísi í af hverju og hvernig og vísi í samkomulagið. Það er verið að breyta lögunum þannig að prestar verða ekki lengur opinberir starfsmenn hjá ríkinu heldur verða undir kirkjunni. Launasamningur samkvæmt orðanna hljóðan er þá við kirkjuna en ekki lengur við ríkið. Ríkið kaupir svo þjónustu af þessari kirkju og þar er ég alveg sammála hv. þingmanni, það er mjög loðið hvaða þjónustu er verið að kaupa, hvernig og hversu oft. Þar er lítið gagnsæi og maður veltir fyrir sér hvort það standist. Maður veltir líka fyrir sér hvort við getum farið að sjá mögulega samkeppni milli prestakalla. Ég veit það ekki. Kannski mun ríkja þar hið frjálsa markaðskerfi.