150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr einfaldlega af því að núna er þjóðkirkjan einmitt í A-hluta ríkisins og er með upphæð í fjárlögum undir sínum lið og málaflokki o.s.frv. en við þessa breytingu ætti hún væntanlega að færast í viðauka fjárlaga undir samningana sem eru þar og hverfa úr fjárlögunum sem slíkum. Þá erum við komin í ákveðin þjónustukaup en ekki launasamning eins og viðbótarsamkomulagið lítur út af því að það kveður á um 90% launahlutfall, að 90% af upphæðinni breytist eftir launavísitölunni. Hitt eru smámunir í einhverju öðru og er ekkert voðalega skýrt tiltekið hvað það fjallar um. Ekkert er fjallað um hvernig þetta á að vera uppgreiðsla, greiðslur vegna eignatilfærslunnar, sem átti upprunalega að vera fullnaðaruppgjör gagnvart þeim.

Þess vegna klóra ég mér dálítið í hausnum og skil málið ekki alveg. Hérna er vissulega verið að taka starfsmenn sem eru ríkisstarfsmenn núna og flytja þá undir samningshluta fylgirits fjárlaga og upphæðina með og þess vegna skiptir viðbótarsamkomulagið máli, af því að það er samningurinn sem flyst með og flytur fjármunina úr fjárlögunum yfir í samninginn. Þess vegna skiptir máli að tala um samkomulagið og hvernig það lítur út og hljómar og fyrir hvað við erum að borga, af því að við þurfum að hafa eftirlit með því að þjónustan sem við kaupum skili sér og við höfum ákveðinn ábata af þeirri notkun á almannafé. Ekkert svoleiðis er að finna í viðbótarsamkomulaginu og þess vegna spyr ég hvernig þetta getur í rauninni verið launasamningur eins og það lítur út fyrir að vera þrátt fyrir að það eigi ekki að vera það miðað við upprunalega kirkjujarðasamkomulagið og þessa tilfærslu á A-hluta stofnun yfir í samningsstofnun.