150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Ég verð að vera alveg sammála hv. þingmanni þarna og er þetta þó andsvar en ekki meðsvar af því að við erum ekki í sama stjórnmálaflokki. Stundum er það þannig að maður hugsar: Já, er þetta ekki bara fínt af því að ég er á því að það eigi einhvern að reyna að fara að losa um þetta tangarhald eða þetta misskilda hjónaband milli ríkis og kirkjunnar? Ég held að þetta sé hvorugum gott í þessu misskilda hjónabandi. Ég er alveg sammála því að það verður að vanda sig þegar verið er að gera samninga og það þarf að skilja hvaðan þeir koma. Auðvitað þyrfti að taka þetta allt upp og skoða hvað fólki gekk til. Auðvitað á að gera það núna og gera það á hverjum degi, þegar gerðir eru svona samningar, og spyrja: Fyrir hvað er verið að borga og hvað fæst fyrir það? Sérstaklega þegar um er að ræða rekstur ríkissjóðs skiptir máli að við horfum til þess hvort við séum t.d. að setja peninga í að viðhalda rafmagni um allt land svo að það þurfi ekki að setja upp fjöldahjálparstöð eins og núna. Erum við að tryggja að landsmenn allir fái fullnægjandi heilbrigðisþjónustu o.s.frv.? Þegar fjármunir eru naumt skammtaðir eða það er ekki gnótt af þeim þrátt fyrir ríkidæmi okkar þarf að horfa á hvert peningarnir eru að fara. Af hverju og hvernig? Auðvitað á að gera það í þessu samhengi eins og öllu öðru.