150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Ég verð að vera alveg innilega sammála og aftur taka undir og velta upp þessu sem ég hóf ræðu mína á, hvað það er tortryggilegt að frumvarpinu sé skutlað inn rétt fyrir þinglok, að það megi ekki ræða það, að ekki megi ræða báknið, ekki megi ræða skuldbindingu til næstu 15 ára upp á tugi milljarða. Það er í hæsta máta sérkennilegt og vekur upp mjög margar spurningar. Hvers vegna treystir ríkisstjórnin sér ekki til að koma með þetta mál hingað inn í dagsbirtu? Hvers vegna treystir Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki til þess að bera þetta á borð fyrir Alþingi Íslendinga í dagsbirtu? Af hverju á að skutla þessu hérna í gegn í miðju roki yfir nótt án umræðu? Það er frekar óþægilegt að horfa upp á þessi vinnubrögð af því að þetta eru svo miklir peningar, af því að sumir flokkar tala mjög fyrir því að minnka báknið og aðrir flokkar tala mjög fyrir því að ríkið sé ekki að setja peninga í eitthvað sem er ekki víst að allir noti, eins og t.d. almenningssamgöngur sem ég tel mjög gott dæmi af því að þær hafa víðtæk áhrif. Þá myndi ég halda að það væri mjög mikil þörf á að ræða alla þá skuldbindingu sem hér er fyrir síminnkandi hóp en vil þó segja að lokum í þessari umferð að mér er ekkert illa við kirkjuna, bara hreint ekki. Hún hefur (Forseti hringir.) gert mörgu fólki ágætt og er góð til síns brúks fyrir þá sem hana stunda.