150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil í síðari ræðu minni í þessu máli víkja aðeins að sjóðum kirkjunnar. Helstu sjóðir kirkjunnar eru Jöfnunarsjóður sókna, kirkjumálasjóður og Kristnisjóður. Nú er það svo að í því nýja samkomulagi sem er til umræðu verða þær breytingar gerðar — og það lýtur náttúrlega að fjárhag kirkjunnar — að allir sjóðir verða settir í einn pott, ef svo má að orði komast. Þess vegna er mikilvægt í mínum huga að það ríki ákveðið gagnsæi og ráðdeildarsemi þegar kemur að þeim sjóðum. Ég tel t.d. ekki heppilegt að stjórn sjóðanna sé í höndum fimm manna kirkjuráðs. Ég held að eðlilegt væri að það væru þrír til fjórir sjóðir sem kirkjuþing kysi síðan stjórnir í. Ég held að það sé mikilvægt að þetta sé haft í huga þannig að sjóðirnir verði aðgreindir með sérstökum stjórnum sem kirkjuþing kýs. Í þessu samkomulagi er ekkert skilgreint hvað sjóðirnir fá vegna þess að samkomulagið lýtur að því að ríkissjóður greiði bara ákveðna upphæð sem byggist á kirkjujarðasamkomulaginu frá 1907 þar sem ríkissjóður skuldbatt sig til að greiða laun presta og svo 1997 þegar uppgjörið verður gagnvart kirkjujörðunum. En það er líka allt í lagi að hafa í huga hér að tilgangur þessara sjóða, þegar þeir voru stofnaðir á sínum tíma, var að bæta kirkjunni að hluta tekjumissi sem hún varð fyrir þegar ríkið yfirtók kirkjueignirnar og arðinn af þeim 1907.

Ég held að svolítið mikilvægt sé að hafa þetta í huga. Það er gott fyrir kirkjuna að það ríki gagnsæi og ráðdeildarsemi þegar kemur að sjóðunum. Þetta eru sjóðir sem eru mjög mikilvægir, eins og t.d. Jöfnunarsjóður sókna. Í lok 19. aldar færist umsjón með viðhaldi og byggingu kirkna frá prestinum, eins og sagt er, til safnaðarins, en tekjur vegna jarða og skattur fylgdu með. Síðan voru eignir kirkjunnar afhentar ríkinu árið 1907, eins og áður segir, en tekjur af þeim höfðu ávallt staðið undir viðhaldi eignanna og þjónustu við söfnuðinn. Þetta skiptir verulegu máli, t.d. gagnvart landsbyggðinni, þeim litlu og fámennu sóknum sem þar eru, viðhald á þessum ágætu kirkjum til sveita sem eru nú partur af menningarlandslagi okkar og skipta okkur máli, hafa aðdráttarafl fyrir ferðamenn o.s.frv., það verður náttúrlega að viðhalda þessum byggingum. Fámennar sóknir hafa ekki ráðrúm til þess öðruvísi en að leita í þennan sjóð. Hann hefur ekki í öllum tilfellum verið nýttur sem skyldi hvað það varðar að settir hafi verið peningar í kirkjubyggingar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. En þeir hlutir held ég að sé mikilvægt að verði á hreinu þegar kemur að því að þetta tekur gildi og sjóðirnir verða komnir í nýjan pott. Jöfnunarsjóður er styrktarsjóður sem kirkjuráð úthlutar úr til kirkna með sérstöðu og til að jafna aðstöðu sókna ef tekjur nægja ekki fyrir útgjöldum. Þá er sérstaklega horft til smærri söfnuða.

Ég vildi koma þessu að, frú forseti, að mikilvægt sé að þetta gangi (Forseti hringir.) allt vel innan kirkjunnar, að skipa stjórnir yfir þessa sjóði og aðlagast breyttu fyrirkomulagi.