150. löggjafarþing — 43. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[00:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það einmitt vera dálítið lykilatriði í fjárlaganefnd að við höfum ekki hugmynd. Okkur er bara rétt heildarupphæð og sagt við okkur: Þetta er það sem þarf. Eftir stend ég og horfi á lög um opinber fjármál og ég á að fylgjast með því hver gæði þjónustunnar eru o.s.frv. og hver ábatinn er af notkun á almannafé og ég veit ekki einu sinni að hverju ég á að byrja að spyrja, nema bara stóru spurningarinnar: Hvernig skiptist þetta? En þá fæ ég engin svör. Þetta er það sem ég reyni aftur og aftur vegna þess að því oftar sem maður spyr og fær engin svör, þeim mun kjánalegri lítur sá út fyrir að vera sem er spurður fyrir að vita ekki svarið við því sem ég myndi telja vera mjög augljósa spurningu: Af hverju kostar þetta svona mikið? Af hverju kostar þetta ekki 100 milljónum meira eða 100 milljónum minna? Hvað er ég að fá fyrir þennan pening, því að viðbótarsamkomulagið lítur nákvæmlega eins út og launasamningur? Það er talað um að heildarupphæðin, 90% af þeim samningi, sé uppfærð eftir launavísitölu. Við erum að borga laun miðað við þetta. Það á ekki að vera þannig en samningurinn lítur þannig út. Svo komum við og ætlum að fá þjónustu í þessum söfnuði og þá þurfum við að borga aukalega. Bíddu, erum við ekki búin að borga launin? Ég átta mig nefnilega ekki á þessari tengingu og ef ég vil gagnrýna upphæðina veit ég ekki hvar ég á að byrja og í því liggur vandamál mitt varðandi þetta frumvarp. Það fjallar um tilfærslu starfsmanna frá A-hluta ríkisins yfir í samningahluta fjárlaganna og þá tilfærsluna á fjármununum með. Þá er ég farinn að kaupa þjónustu af þessum starfsmönnum þjóðkirkjunnar, en ekki ríkisins, og ég vil fá að vita hvaða þjónustu ég er að kaupa.