150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

raforkuöryggi.

[10:53]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og að fá tækifærið til að fara yfir þessi mál. Fyrst er spurningin hvort flutnings- og dreifikerfi á Íslandi sé nægilega sterkt. Nei. Þurfum við að fara í frekari framkvæmdir, treysta það og byggja það upp? Já. Hafa framkvæmdir gengið mjög snurðulaust fyrir sig, sérstaklega í flutningskerfinu undanfarin ár? Nei, alls ekki. Höfum við lagt áherslu á að treysta flutningskerfi raforku? Erum við með augun á þeim boltum? Erum við að reyna að gera það sem við getum til að flýta fyrir því og koma þeim framkvæmdum sem þarf að koma á áfram? Svarið við því er já.

Það er bæði hægt að draga úr og gefa í vegna þess að auðvitað er alveg augljóst að veðrið var mjög óvenjulegt. Horfum til að mynda á Þeistareykjalínu 1 sem er topplína í kerfinu okkar, glæný og mjög sterk. Hún fer samt út sem segir okkur að veðrið hafi greinilega verið mjög átakamikið og vont. Síðan er þessara fyrirtækja að svara því nákvæmlega hvernig þau undirbjuggu sig fyrir veðrið. Voru þau með nægilegan mannskap á hverjum stað fyrir sig með tilliti til þess hvar veðrið átti að vera sem verst? Þau þurfa að svara því. Er eitthvað sem við getum lært af því sem gekk hér á? Að sjálfsögðu. Ríkisstjórnin mun taka höndum saman og leggjast yfir það sem hefur gengið á undanfarna daga og fara yfir það hvernig við getum farið í beinharðar aðgerðir til að læra af því.

Við erum með frekar flókið regluverk utan um það hvernig við komum svona framkvæmdum á koppinn og það er hægt að gera betur í því. Minn vilji stendur til þess. Það hefur tekið of langan tíma að gera til að mynda þær mikilvægu breytingar á meginflutningskerfinu (Forseti hringir.) sem hefur þurft að gera. Ég segi þó líka að það hafa verið mjög miklar framkvæmdir í kerfinu, bæði dreifikerfinu og flutningskerfinu. Dreifikerfið er að langmestu leyti komið ofan í jörð (Forseti hringir.) þannig að það skilar líka sínu. Ég ætla heldur ekki að fella einhvern áfellisdóm yfir þeim sem hafa unnið hörðum höndum undanfarna daga.