150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjármagn til heilbrigðismála.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur engum málaflokki teflt framar en heilbrigðismálunum. (HVH: Það er ekki nóg.) Við höfum stóraukið framlög til heilbrigðismála í þessari ríkisstjórn. Hv. þingmaður kallar hér fram í og segir: Ekki nóg. Vísað er í 1 milljarðs eða 2–3 milljarða halla Landspítalans og síðan í hinu orðinu sagt að samkvæmt einhverjum OECD-tölum ættum við að verja 1% eða jafnvel 2% meira af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Hvað eru 2% af landsframleiðslu til heilbrigðismála? 60 milljarðar. Hvað er þessi hv. þingmaður að tala um, virðulegi forseti? Er hún að tala um að við þurfum að setja 60 milljarða í heilbrigðiskerfið eða er hún að tala um þennan rekstrarvanda sem birtist okkur í 1, 2 og 3 milljörðum?

Ég vek athygli á einu. Hv. þingmaður kvartar undan því að hlutfallið af landsframleiðslu í samanburði við aðrar OECD-þjóðir sé hjá okkur ekki nægilega gott. Gott og vel, ég tek eftir því en ég bendi á að þar hefur ekki verið leiðrétt fyrir aldurssamsetningu þjóðarinnar. Í hinu orðinu er kerfið svo dásamað og sagt vera starfsfólkinu að þakka. Ég tek undir það. Alveg eins og skólarnir eru bornir upp af kennurunum er heilbrigðiskerfið borið upp af heilbrigðisstarfsfólkinu (Forseti hringir.) og það stendur sig vel. Þegar upp er staðið er það ekki hlutfallið af landsframleiðslu sem hér telur fyrir (Forseti hringir.) landsmenn heldur gæði þjónustunnar sem eru mjög mikil.

(Forseti (SJS): Það er augljóst mál að hin handvirka tímamæling skilar ekki sama árangri í því að halda mönnum við efnið.)