150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég bað í lok fundar í gær um að hæstv. dómsmálaráðherra væri hérna því að ég er með ansi margar spurningar handa henni um þetta mál. Kjarninn í málinu sem við erum að ræða hérna er sem sagt færsla á starfsmönnum frá því að vera ríkisstarfsmenn yfir í að vera starfsmenn þjóðkirkjunnar. Undir því er þessi samningur sem lítur út fyrir að vera launasamningur við kirkjuna, þetta viðbótarkirkjujarðasamkomulag, þrátt fyrir að það eigi alls ekki að vera þannig samkvæmt upprunalega kirkjujarðasamkomulaginu sem er afgreiðsla og fullnaðaruppgjör á eignatilfærslu. Það að blanda þessu svona saman er gríðarlega flókið að þessu leyti og spurningarnar sem hafa vaknað upp — fyrirgefið, virðulegur forseti, gæti ég fengið þögn í salnum?

(Forseti (SJS): Það er rétt hjá ræðumanni, það er fullmikið skvaldur í salnum. Mælst er til þess að menn láti af einkafundum úti um allt í salnum og snúi sér rétt í sætum sínum.)

Einfaldar spurningar hafa vaknað í þessari umræðu. Ég byrja á spurningunni um hvaða þjónustu við erum að kaupa. Þessi samningur er að færast yfir í þjónustu- og samningshluta fjárlaganna og það er tilgreint mjög skýrt í lögum um opinber fjármál hvernig eftirlitshlutverk og gæðakröfur eru gagnvart slíkum samningum. Það geta ekki verið launasamningar eins og þetta samkomulag lítur út.

Hvað kostar sú þjónusta og af hverju kostar hún þetta mikið? Af hverju kostar hún ekki meira? Af hverju kostar hún ekki minna? Við höfum ekki hugmynd um það og það er engin sundurliðun á því hvaða þjónustu við erum að fá. Hvernig gerum við upp þá eignatilfærslu sem upprunalega kirkjujarðasamkomulagið átti að snúast um? Hver er staðan á skuldbindingum þeirra eigna sem runnu til ríkisins 1997 og 1998 í kirkjujarðasamkomulaginu? Hvernig uppfyllum við 62. gr. stjórnarskrárinnar? Er það hluti af þessu samkomulagi eða ekki? Ég hef ekki hugmynd.

Er þetta breyting á kirkjuskipun á þann hátt að það þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar? Það er ekki bara þetta frumvarp sem liggur hérna undir heldur er viljayfirlýsing um ýmsar aðrar breytingar sem tengjast þessu viðbótarsamkomulagi. Er heildin á þeim breytingum það mikil að það varði við breytingu á kirkjuskipun samkvæmt stjórnarskránni þannig að það þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu? Dugir þetta mál? Þarf þjóðaratkvæðagreiðslu um það? Þarna er verið að breyta þjóðkirkjunni úr stofnun í A-hluta ríkisins og taka hana þar út. Ég myndi telja það ansi mikla breytingu þegar allt kemur til alls. Stenst samkomulagið í lögum um opinber fjármál? Ef skoðaðar eru þær greinar sem eiga við um þetta í lögum um opinber fjármál er textinn beint fyrir framan mann og samanburður við viðbótarsamkomulagið sýnir fram á augljósan árekstur þar á milli. Þar stendur t.d. 15 ára endurskoðunarákvæðistími um samningsákvæðistímann og hámarkstími í lögum um opinber fjármál um svona samninga er upp á fimm ár. Hvernig getur ríkisstjórnin þar af leiðandi komið með svona samkomulag og lagt fyrir Alþingi?

Hvernig er fjárheimildum um þennan samning háttað? Stenst það 41. gr. stjórnarskrár um fjárheimildir, að ekkert gjald megi greiða nema fyrir því sé fjárheimild í fjárlögum eða fjáraukalögum, þegar talað er um þetta langan tíma og ótilgreindan samningstíma? Hvernig á þingið síðan að geta fylgst með því hvort fjárheimildir standist samkvæmt stefnu og markmiði eins og gert er ráð fyrir í lögum um opinber fjármál? Af hverju lítur þetta einmitt út eins og launasamningur með tilliti til þessarar 90% launahlutdeildar samningsins þegar þetta á að vera uppgjör gagnvart eignatilfærslu eða kaup á ákveðinni þjónustu, eins og hefur komið fram í umræðunni? Hvaða þjónustu erum við að tala um? Er það þjónusta sem einhverjir aðrir geta boðist til að sinna?

Á heildina litið er frumvarpið sem við erum að ræða, bara sérstaklega það, að vissu leyti ágætt. Ég kvarta reyndar undan því að ekki séu nema átta dagar liðnir síðan frumvarpið var lagt fram. Það kemur ekki til með að fá eðlilega afgreiðslu og umsagnir sem ég geri alveg stórkostlega alvarlega athugasemd við miðað við stærð breytinganna en almennt séð er ég tiltölulega hlynntur þeim breytingum sem verið er að gera. En það er svo margt annað sem tengist þessu frumvarpi sem er mjög athugavert. Viðbótarsamkomulagið sjálft er lykilatriði í nákvæmlega þessum breytingum af því að þetta lítur einmitt út, eins og ég segi, fyrir að vera launasamningur (Forseti hringir.) og þá verðum við að tala um viðbótarsamkomulagið í heild sinni tengt þessu.