150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, og nú er þessari 1. umr. að ljúka. Ég fagna því og er sammála hv. þingmanni þegar hann sagði áðan að hann teldi það vera mikilvægt skref að gera þetta samkomulag og mér finnst ánægjulegt að heyra það frá honum.

Hv. þingmaður nefndi einnig að mikilvægt væri að nálgast þessa umræðu af virðingu og ég er honum jafnframt þakklátur fyrir það vegna þess að ég er honum hjartanlega sammála í þeim efnum. En ég verð hins vegar að segja að sumir félagar hans í flokki Pírata hafa að mínu mati ekki nálgast þetta mál af nægilegri virðingu og nota orðalag sem ég tel ekki við hæfi í umræðunni, en ég ætla ekki að fara nánar í það.

Við þekkjum það að sú þjónusta sem kirkjan veitir í kirkjum landsins er mörgum afar mikilvæg. Við þekkjum kyrrðar- og bænastundir og fólk getur leitað á öllum stundum til presta, fengið aðstoð, sálgæslu o.s.frv. Þessi þjónusta stendur Íslendingum til boða endurgjaldslaust um allt land. Á tímum umróts í lífi fólks er mikilvægt að hafa einhvern til að tala við, eins og við þekkjum, og prestarnir hafa veitt slíka þjónustu. Boðið er upp á ýmis námskeið og fjölskylduþjónusta kirkjunnar veitir mjög mikilvæga aðstoð hér innan lands. Síðan höfum við sálgæsluhlutverk kirkjunnar, sjúkrahúsprestana, aðstoðina við flóttamenn o.s.frv.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Finnst honum þetta ekki mikilvægt innlegg (Forseti hringir.) inn í umræðuna þegar hún hefur, sérstaklega af hálfu Pírata, snúist aðallega um fjárhagslega þáttinn, að ríkið sé búið að leggja þetta mikinn pening út fyrir jörðum sem Píratar telja að hafi ekki nægilegt verðgildi?