150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ég lýsi ánægju minni með að hann hafi leitað til kirkjunnar hvað þessa þjónustu varðar og líkað vel. Við verðum að hafa í huga í þessu sambandi að mjög margir innan kirkjunnar sem sinna þessum störfum eru vel menntaðir á þessu sviði, hafa sérmenntun í fjölskylduráðgjöf, sálgæslu og öðru slíku, í sjúkrahúsþjónustu presta o.s.frv. og sinna þar mjög mikilvægum og erfiðum störfum. Að mínu mati má þetta ekki gleymast í umræðunni, mjög mikilvægt er að þessu sé haldið til haga vegna þess að mér finnst málflutningur sumra, sérstaklega Pírata og nú er ég kannski ekki að segja að það eigi við um hv. þingmann, vera á þann veg að öll sú þjónusta sem kirkjan veitir sé í raun aukaatriði, (Gripið fram í: Nei.) þetta menningarlega hlutverk sem hún hefur. Menn eru alltaf að einblína á einhverjar upphæðir, að þetta samræmist ekki lögum um opinber fjármál o.s.frv. (Forseti hringir.) en það er verið að veita mjög mikilvæga þjónustu. Við megum ekki gleyma því, herra forseti, og ég tel að rétt sé að halda því til haga.