150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nefnilega þannig, sérstaklega á þeim árum sem kirkjuskipaninni var breytt, lögin voru samþykkt 1907, að það voru einmitt bændakirkjurnar sem lágu undir í þessu og tilgangurinn þar var að hækka laun presta og það var pólitísk ákvörðun í þeirri lagasetningu sem þá fór fram. Hún skiptir máli í samhengi þess máls sem við erum að ræða hérna af því að undir þessum lagabreytingum, þar sem verið er að færa presta frá því að vera ríkisstarfsmenn sem tilheyra stofnun í A-hluta ríkisins yfir í að vera undir þjóðkirkjunni sjálfri, samningsbundinni, utan ríkisins, liggur viðbótarsamkomulag. Þar eru peningarnir sem eru notaðir til að greiða launin miðað við hvernig samningurinn lítur í raun og veru út. Þess vegna þurfum við að ræða það viðbótarsamkomulag í samhengi við lögin sem við erum með hér, í því samkomulagi eru launin fyrir starfsmennina sem er verið að tala um að færa þarna á milli. Grunnurinn að viðbótarsamkomulaginu er kirkjujarðasamkomulagið sem í eðli sínu er uppgjör á eignatilfærslunni, það er uppleggið í þeim samningi sem er einhvern veginn búið að breyta yfir í launasamning fyrir þessa yfirfærslu starfsmanna frá ríki til kirkju. Uppleggið að kirkjujarðasamkomulaginu er síðan einmitt sagan, eins og hv. þingmaður rekur, alveg niður í pólitíkina árið 1907 þegar ríkið ákveður að taka til sín umsýslu þessara eigna til að láta andvirði þeirra standa undir greiðslum af hækkun launa presta. Sagan í þessu er alveg stórkostlega merkileg og hápólitísk. Þess vegna er nauðsynlegt að tala um þetta allt í þessu samhengi til að við getum í raun og veru, ef við ætlum að fara í aðskilnað ríkis og kirkju sem er verið að tala um, og að þetta sé eitt af fyrstu skrefunum, gert það á hreinan hátt og skilið við það án skuldbindinga á einn eða annan hátt. Þess vegna þarf að tala um þetta í stærra samhengi líka.