150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að fyrirvarinn er vissulega skammur. Við þurfum ekki að deila um það. Ég bendi þó á að allir lögaðilar, þ.e. lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi og eru skráðir í fyrirtækjaskrá, hafa frá og með 30. ágúst orðið að afla þessara upplýsinga þannig að menn ættu að vera byrjaðir að undirbúa sig. Það er líka ljóst að frá 1. desember sl. hafa lögaðilar getað skráð raunverulega eigendur rafrænt inn á vef ríkisskattstjóra.

Hvort þessi lagabreyting hér, þ.e. að flýta þessari skyldu, hafi áhrif á mat FATF á fundi í febrúar þannig að það leiði til þess að við förum út af hinum gráa lista, ég hygg að þær vonir séu ekki miklar. Ég held að þetta atriði eitt og sér ráði ekki afstöðu, en þetta sendir hins vegar mjög skýr skilaboð til FATF frá Alþingi Íslendinga og frá íslenskum stjórnvöldum um að hér er unnið hratt og vel að því að koma þeim málum sem hafa kannski ekki verið í nægilega góðu lagi í það lag að það sé skýrt að við eigum ekki og hefðum aldrei átt að eiga heima á svokölluðum gráum lista FATF.