150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að síðustu og kannski einu spurningunni sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson bar fram: Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki svarið. Það kæmi mér hins vegar verulega á óvart ef í ljós kæmi að fyrstu athugasemdir við að hér séu ekki lög um raunverulega eigendur hefðu verið gerðar árið 2017. Það er eitthvað í minni mínu sem segir mér að það hafi verið fyrr en ég þori bara ekki að standa hér og fullyrða að svo hafi verið.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni, og við höfum verið sammála í þeirri miklu vinnu sem við í efnahags- og viðskiptanefnd höfum verið í á undanförnum tveimur, þremur árum við að breyta lögum og innleiða ný lög er varða peningaþvætti, að við vorum pínulítið sofandi hér á árum fjármagnshafta. Það er auðvitað gagnrýnivert. Annars vegar er það gagnrýnivert gagnvart stjórnvöldum en við verðum líka að horfa í eigin barm, að þegar við vorum að hefjast handa við að losa fjármagnshöftin skyldum við ekki huga með betri og skilvirkari hætti að því að herða lög og reglur þegar kemur að peningaþvætti. Við erum ekki búin að bíta úr nálinni með það, það er alveg ljóst. En þegar ég segi hins vegar að Ísland hafi ekki átt heima á þessum gráa lista núna þá stend ég við það vegna þess að þegar menn horfa til baka og horfa yfir það sem við höfum verið að gera undanfarin tvö eða þrjú ár er alveg ljóst að búið er að vinna stórvirki. Það var mjög sérkennilegt að lenda á þessum gráa lista fyrir atriði sem voru framkvæmdaratriði, herra forseti, en (Forseti hringir.) voru kannski líka í undirbúningi.