150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að FATF hittist þrisvar á ári, í febrúar, í júní og svo í október. Til þess að vera laus af þessum gráa lista þarf að uppfylla hin svokölluðu 48 lágmarksviðmið frá árinu 2012. Fyrir 2012 voru önnur viðmið viðhöfð sem voru 40 talsins og voru samþykkt 1990 en þar á meðal voru ákvæði um að það væri vitað hverjir væru raunverulegir eigendur. Ég ætla að fá að vera ósammála hv. þingmanni um að við eigum ekki að vera á þessum gráa lista vegna þess að ef við uppfyllum ekki þessi 48 viðmið, þá erum við í rauninni að uppfylla það eina skilyrði sem liggur fyrir um það hvernig lönd komast á þennan gráa lista.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að við erum á þessum lista og í ljósi þess að við viljum ekki vera þar og að við viljum standa okkur vel í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka: Hvers vegna er ekki farin sú leið að gera kröfu um að raunverulegir eigendur séu skráðir fyrir 1. febrúar þannig að við séum örugglega búin að ganga þannig frá málum fyrir næsta fund FATF að það sé búið að alla vega tikka í það box? Loforð um að það verði tikkað í þetta box í næsta mánuði er ekki jafngilt því að tikka í boxið. Það er ekki jafngilt því. Þessi 48 viðmið eru ekki það flókin, löggjöfin okkar hefði átt að vera komin á það stig og það að við séum ekki komin á það stig er eiginlega alger hneisa.