150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt sem ég ætla ekki að gera, það er að fara í rökræður við hv. þm. Smára McCarthy um upplýsingatækni eða tölvutækni yfir höfuð vegna þess að ég veit að það endar með skelfingu. [Hlátur í þingsal.] Ég segi bara að mér finnst að það sé ágæt hófsemd í því að miða við 1. mars. Ég féllst á þau sjónarmið. Ég skil hins vegar röksemdir hv. þingmanns. Ég er ekki að mótmæla þeim, en þetta eru íþyngjandi ákvæði. Við erum auðvitað að færa dagsetninguna fram um þrjá mánuði. Ég segi líka aftur: Ekki samþykkja þetta frumvarp í þeirri trú að með því komist Ísland af hinum gráa lista í febrúar. Ef við erum raunsæ getum við ekki reiknað með því, alveg sama þó að við færðum þetta til 1. janúar og gerðum ýmislegt annað í millitíðinni, að við komumst af hinum gráa lista í febrúar. Ég held að það verði ekki fyrr en það líður á næsta ár, hugsanlega á fundi tvö hjá FATF. Ef það hins vegar gerist í febrúar skal ég verða manna glaðastur. Það er auðvitað möguleiki en það getur enginn staðið hér í þessum ræðustól og fullyrt að það séu góðar líkur til þess að Ísland komist af hinum gráa lista í febrúar. Þá eru menn að vekja upp vonir sem eru ekki raunsæjar.