150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig minnir að við umræðuna í efnahags- og viðskiptanefnd hafi ég einmitt nefnt að það væri alveg hægt að gera þetta hraðar. Það er rétt að ég er mikill áhugamaður um vandaða lagasetningu og þegar þetta var afgreitt var kannski aðalatriðið að það væri afgreitt þannig að við værum ekkert endilega að tefja það neitt frekar. Þó að ég hefði kannski viljað að það færi öðruvísi var ekki ástæða til að flýta því á þeim tíma, sérstaklega í ljósi þess að á þeim tíma sem við afgreiddum þetta hafði legið fyrir og við höfðum fengið upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd um þessa hótun eða a.m.k. að hætta væri á að við færum á gráa listann að ef við tækjum okkur ekki á. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum á þeim tíma var þetta eitt af þeim skrefum sem þurfti að taka til þess að við færum ekki á gráa listann. Gott og vel, það var líka þannig að við höfðum ekki upplýsingar um allt hitt sem þurfti að gera. Það var greinilega fleira og svo var rekið í gegn á núll einni, rétt áður en við fórum á gráa listann, frumvarp sem átti að vera endanlega reddingin. Ég veit reyndar ekki enn þá hvernig því var tekið hjá FATF en við verðum að átta okkur á því að okkur hefur verið sagt í mörg ár, í það minnsta í eitt ár, að við þurfum að taka okkur á. Okkur var gefið rosalega mikið svigrúm þegar við vorum í höftum og þegar við höfðum nýlega afstaðið hrun til þess að taka okkur á en án þess að verið væri að beita okkur aukalegum viðurlögum. Núna er sú þolinmæði þrotin og ég held að það að við völdum þessa dagsetningu á þeim tíma sé alveg ástæða til að spyrja okkur: Vorum við kannski bara í einhverjum furðuheimi þar sem allt verður bara frábært til endaloka? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Hefðum við getað staðið okkur betur? Ég segi: Já, auðvitað hefði ég getað staðið mig betur í nefndinni og auðvitað hefði hv. þingmaður líka getað gert það.