150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er hárrétt hjá þingmanninum, við getum öll alltaf staðið okkur betur og eigum alltaf að stefna að því að leggja okkur meira fram. Það sem ég velti hins vegar fyrir mér er hver sé í huga þingmannsins grundvallarmunurinn á 1. mars og 1. febrúar annar en 30 dagar. Ég hefði í sjálfu sér alveg getað séð það þannig að ef við hefðum verið að afgreiða þetta mál í fyrstu viku desember og hefðum sirka tvo mánuði til að klára það hefði það verið hægt. Mér sýnist samt eins og mál standa nú í þinginu að það að ætla mönnum 25 virka daga eða svo til að ganga frá þessu á landsvísu sé óþarflega knappt og mér þykja það ekki vönduð vinnubrögð, sérstaklega ekki í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um að 28 aukadagar í febrúar sem þar með fengjust myndu breyta miklu um stöðu okkar. Ég tel að það eitt að íslenska þingið sýni í verki að það geti brugðist hratt við, það geti breytt dagsetningum eins og þessari án þess að allt fari á hliðina og án þess að það skapi svo sem gríðarlega mikla umræðu í þingsal, sé mjög skýrt merki til þeirra aðila sem þingmaðurinn réttilega nefndi að við þurfum að standa okkur gagnvart.