150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Þetta mál er gott dæmi um hvað gerist þegar við tökum alþjóðlegar skuldbindingar okkar ekki nægilega alvarlega, vanrækjum að innleiða það sem við höfum skuldbundið okkur til að innleiða og, eins og í þessu tilviki, hunsum árum saman. Eins og kemur ágætlega fram í skýrslu dómsmálaráðherra um ástæður þess að við lentum á þessum gráa lista FATF fór þriðja úttekt fram árið 2006 og það gerðist nær ekkert í innleiðingu þeirra úrbóta sem krafist var, sem þó eru umtalsverðar, fyrr en líða fer á árið 2015. Það þurfti raunar 17 eftirfylgniskýrslur af hálfu FATF til að reka á eftir okkur að ráða bót á þeim aðfinnsluefnum sem sett voru fram árið 2006. Við sluppum fyrir horn með að lenda á einhvers konar skammarlista haustið 2015, báðum sérstaklega um að vera ekki sett á slíkan lista, gegn loforði um bót og betrun, og í raun og veru má segja að við höfum síðan losnað úr eftirfylgni FATF í þriðju úttektinni á árinu 2016, ekki með staðfestingu á því að hlutirnir væru í lagi hjá okkur heldur að við hefðum sennilega gert nóg og með vísan til þess að fjórða úttektin væri hvort sem er alveg að hefjast.

Það er nefnilega athyglisvert í þessu tiltekna máli varðandi raunverulega eigendur, sem eru hornsteinn í vörnum gegn peningaþvætti — eftir að hafa starfað í fjármálakerfinu fyrir tveimur áratugum og þá var kjarni máls þegar kom að vörnum gegn peningaþvætti að til væri skrá yfir raunverulega eigendur — að verið var að benda okkur á þetta, a.m.k. frá árunum 2014 og 2015 í eftirfylgni FATF á þeim árum, að við værum ekki með þessa hluti í lagi. En samt erum við fyrst að setja löggjöf um skráningu raunverulegra eigenda lögaðila núna, hún tók gildi 30. ágúst sl. Nú erum við að reyna að klóra í bakkann, af því að við enduðum engu að síður á gráa listanum, með því að hraða gildistöku, tímamörkum sem þar voru sett, um þrjá mánuði. Ég styð það mál en ég tel það hins vegar óhentugt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að verið sé að gefa svona stuttan tíma, að það séu í þessu tilviki einungis þrír mánuðir eða þar um bil sem fyrirtæki hafa til að ljúka þessum skráningum. Vert er að hafa í huga að það getur verið talsvert flókið, t.d. í almenningshlutafélögum, að grafa upp hverjir séu hinir raunverulegu eigendur þegar hluthafar eru t.d. erlendir hlutabréfasjóðir og skráning er á bak við raunverulega eigendur þar og afla verður þeirra gagna sem til þarf.

Aðalatriðið í þessu er á endanum þetta: Við lentum á gráa listanum vegna áralangrar vanrækslu. Vinstri stjórn áranna 2009–2013 gerði svo að segja ekkert í því að ráða bót á þeim alvarlegu aðfinnslum sem við fengum í úttektinni 2006 og má auðvitað segja hið sama um ríkisstjórnina sem þar sat á undan, úttektin kemur í lok ríkisstjórnartíðar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og svo ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Svo kemur ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og enn er ekkert að gert. Það er ekki í raun og veru fyrr en á miðju kjörtímabili 2013–2016 í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem eitthvað er þó farið að gera. En þó kemur ágætlega fram í skýrslu hæstv. dómsmálaráðherra að enn skorti á að fjármagn væri veitt til málaflokksins. Það er í rauninni ekki farið að ráða bót á því fyrr en haustið 2017. Það er 11 árum eftir að við fengum þessa falleinkunn hjá FATF í þriðju úttektinni. Í umræðunni um raunverulega eigendur, þegar við vorum þó að reyna að gera einhverja bragarbót á þessu á árunum 2015 og 2016, láðist okkur að gæta þess að grundvallarbreytingar höfðu orðið á kröfum FATF um skráningu raunverulegra eigendalögaðila á árinu 2012 — eða 2013, ef ég fer rétt með. Það er enn önnur skýring á því hversu illa við förum út úr þessari fjórðu úttekt að við höfðum í engu tekið tillit til þeirra grundvallarbreytinga sem orðið höfðu á kröfum FATF á þeim tíma af því að við vorum enn þá upptekin við að uppfylla kröfur um úrbætur í liðlega áratugargamalli úttekt.

Það er það sem skín í gegn í skýrslu hæstv. dómsmálaráðherra. Hún gefur nokkuð góða mynd af þessu sorglega ferli öllu. Þegar kom að því að við lofuðum bót og betrun í tengslum við niðurstöðu fjórðu úttektarinnar en ekki enn búin að innleiða, þá var okkur einfaldlega ekki trúað. Okkur var ekki treyst af því að við höfðum ítrekað ekki staðið við fyrri fyrirheit um bót og betrun. Það er sorgarlesturinn í ágætri skýrslu, á eftirfylgniskýrslum nr. 2–16, getum við sagt, þar sem ítrekað er verið að færa fram afsakanir fyrir því af hverju ekki hafi náðst að innleiða það sem heitið hafði verið að innleiða eftir síðustu úttektarskýrslu eða eftirfylgniskýrslu þar á undan o.s.frv. Við glötuðum einfaldlega trúverðugleika okkar gagnvart þessum félagsskap og við erum að súpa seyðið af því hér. Þess vegna hygg ég að það sé alveg rétt sem haft var eftir hæstv. dómsmálaráðherra nýlega, að við, því miður, verðum að varast of mikla bjartsýni á hversu hratt okkur takist að komast af þessum mjög svo vafasama lista. Vera okkar á honum er farin að trufla viðskipti, millifærslur fjármálastofnana og viðskipti fyrirtækja. Við þurfum að varast of mikla bjartsýni um það hversu hratt okkur tekst að leysa úr því. Sjálfsagt verðum við ekki tekin af þeim lista fyrr en við höfum lokið úrbótum að fullu og sýnt fram á að það sé að virka.

Ég held að umræðan um nýlegt mál varðandi alvarlegan grun um mútugreiðslur Samherja í Namibíu og hugsanlegt peningaþvætti þeim tengdum endurspegli svolítið viðhorf okkar til þessa málaflokks. Hér var ítrekað haldið fram af ráðamönnum, bara í tengslum við umræðuna í haust um hættuna á því að við enduðum á þessum gráa lista, að það væru engin dæmi um peningaþvætti hérna. Kannski er rétt í því samhengi að hafa í huga að auðvitað er peningaþvætti ekki einangrað dæmi hér á landi. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Það að við hefðum ekki komið upp um peningaþvætti var kannski frekar til merkis um slæleg vinnubrögð okkar í eftirliti og vörnum gegn því heldur en til merkis um að það væri ekki hér að finna. Skömmu eftir þá umræðulotu kemur á daginn að eitt af stærstu fyrirtækjum landsins virðist vera þvælt inn í mjög alvarlegt mál mútugreiðslna og hugsanlegs peningaþvættis án þess að við hér með okkar eftirliti og vörnum yrðum þess með nokkrum hætti vör. Svona andvaraleysi, kæruleysi myndi ég segja, að taka ekki skuldbindingar okkar í tengslum við varnir gegn peningaþvætti alvarlega, að taka ekki vandamálið alvarlega, að taka það ekki alvarlega að auðvitað er hætta á slíku hér líkt og alls staðar annars staðar, líkt og við sjáum dæmi um svo víða annars staðar þar sem miklu betra eftirlit og miklu meiri varnir eru gegn peningaþvætti en hér á landi — auðvitað erum við ekkert undanskilin hættunni af því. Það er tímabært að þessu andvara- og kæruleysi stjórnvalda linni í þessum efnum. Ég óttast, því miður, að við séum enn stödd á þeim stað í þessum málaflokki þar sem við erum fyrst og fremst í nauðsynlegum lagaúrbótum, sem rétt er að hrósa engu að síður fyrir að það hefur verið gengið nokkuð rösklega til verks við þær á undanförnum misserum. En það er samt einhvern veginn eins og hugur fylgi ekki almennilega máli. Það er enn verið að tala um að þetta sé auðvitað ekkert vandamál hér og þetta sé kannski fyrst og fremst formsatriði til að uppfylla til að við losnum af þessum lista, og spurning hvort við séum að veita enn nægjanlega fjármuni til þessara verkefna.

Það endurspeglast ágætlega í þeirri umræðu sem átti sér stað fyrir fáeinum dögum í þessum sal þegar við vorum að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2020 og stjórnarmeirihlutinn felldi í tvígang tillögur minni hlutans um að tryggja embætti héraðssaksóknara nægjanlegt fjármagn til þeirra viðamiklu rannsókna sem þar eru augljóslega fram undan, m.a. vegna Samherjamálsins svonefnda. Ég vona svo sannarlega að við komumst á þann stað í þessum málaflokki að hugur fylgi svo sannarlega máli, þetta sé ekki bara gert til að uppfylla einhverjar úttektarskýrslur heldur sé raunverulegur vilji til að standa sig vel í þessum málaflokki og reyna af fremsta megni að uppræta mögulegt peningaþvætti sem viðgangist hér á landi — og auðvitað vitum við að það viðgengst hér á landi. Hér er skipulögð glæpastarfsemi líkt og alls staðar annars staðar. Auðvitað vitum við að það er verið að þvætta peninga. Við þekkjum meira að segja ýmsar leiðir og almenn þekking er á því hvers konar leiðir eru notaðar til að koma illa fengnu fé í umferð. Við höfum enga ástæðu til að ætla annað en að við getum hæglega verið fórnarlömb alþjóðlegs peningaþvættis líka. Þess vegna er tímabært að við tökum okkur á, fylgjum þessu eftir af alvöru og að hugur fylgi máli, það sé ekki bara formsatriði að innleiða löggjöfina heldur verði tryggt nægilegt fjármagn til rannsókna, til eftirlits, til að gera það sem okkur er kleift að gera til að uppræta peningaþvætti sem vafalítið þrífst hér .

Þetta mál er í sjálfu sér einföld og tæknileg breyting á þeim lögum sem við afgreiddum síðasta vor. Við erum ekki að gera neitt annað en að hraða dagsetningunni sem fyrirtæki þurfa að ljúka skráningu fyrir. Eins og ég sagði í fyrri ræðu og í andsvari við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, Óla Björn Kárason, þykir mér alltaf fara betur á því að fyrirtæki hafi nægan fyrirvara til að afla nægilegra upplýsinga og ljúka skráningu. Ég held að það sé almennur löstur í íslenskri löggjöf hversu hratt löggjöf er látin taka gildi og hversu lítinn aðdraganda við höfum. Við ættum í raun og veru, eins og varðandi skattbreytingar og gjaldabreytingar sem við erum iðulega að sýsla með, að vera með þær svona ári fyrr á ferðinni en við almennt erum til þess einmitt að skapa nægjanlegan fyrirvara til að standa að þeim undirbúningi sem oft og tíðum þarf að vinna. Það sama á auðvitað við hér. Það hefði verið heppilegra að betri tími hefði gefist í þetta og það hefði svo sannarlega verið hægt ef við hefðum lokið innleiðingu á þessum úrbótum þegar var verið að benda okkur á þennan vanda fyrir allnokkrum árum.