150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki bara hætta á Íslandi. Saga undanfarins áratugar, eða rétt rúmlega það, hefur sýnt okkur að raunveruleikinn er hérna fyrir framan okkur. Í þeim greiningum sem hafa komið fram, t.d. í rannsóknarskýrslum Alþingis, tengist það dálítið uppbyggingu bankakerfisins og ákveðinni samhliða nýtingu á aflandsfélagakerfinu með þeirri uppbyggingu — eða bólustarfsemi kannski, eins og sést náttúrlega eftir á. En það er meira. Sagan er nær okkur hérna á Íslandi, virðist vera, en annars staðar. CFC-löggjöfin var t.d. innleidd seint og um síðir. Það er kannski samband þar sem við sjáum, t.d. í Panama-skjölunum. Fólk sem er tiltölulega háttsett og í áhrifastöðum innan stjórnkerfisins, innan pólitíkurinnar, er einfaldlega viðriðið slík viðskipti, sem gerir að verkum að maður verður að gera ráð fyrir ákveðnum hagsmunatengslum á milli þess að letja til setningar slíkra laga og eiginhagsmuna af því að hafa ekki slík lög. Þrátt fyrir þá sögu varðandi bankahrunið og varðandi Panama-skjölin kemur Samherjamálið upp og það eru enn svona tengsl í gangi í gegnum aflandsfélög úti um allan heim.

Það er mjög skiljanlegt að enn og aftur þurfi að bregðast við af því að þetta viðgengst enn þá. Þrátt fyrir öll rauðu flöggin sem var búið að veifa, þrátt fyrir skýrsluna um eignir Íslendinga í aflandsfélögum, þrátt nýja skýrslu um fé (Forseti hringir.) sem streymir í aflandsfélög, þá einhvern veginn breytist ekkert og ég veit ekki hvort þetta sé einu sinni nóg.