150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni að Benedikt Jóhannesson er besti fjármálaráðherra sem höfum haft hingað til en fékk að njóta sín allt of stutt. Hann hefði vafalítið fyrir löngu verið búinn að klára þetta ágæta mál ef hann hefði haft tíma til.

En já, þetta er eitt dæmi um áhuga- eða sinnuleysi í þessum efnum. Það er fjarstæðukennt og bara rangt í grundvallaratriðum að ríki sé að safna mikilvægum upplýsingum sem ætlaðar eru til þess að auka gagnsæi í efnahagslífinu, atvinnulífinu okkar, sem ætlaðar eru til þess m.a. að fyrirtæki og einstaklingar geti kynnt sér betur hvaða aðilar þau séu mögulega í viðskiptum við, fjárhagslegan styrkleika þeirra, raunverulega eigendur o.s.frv. Að ríkið sé að standa að söfnun þessara upplýsinga — og áttum okkur á því: Að langstærstum hluta á kostnað viðkomandi fyrirtækja, þ.e. það er þeirra að standa skil á þessum upplýsingum til ársreikningaskrár, fyrirtækjaskrár, á eigin kostnað, getum við sagt. Auðvitað er einhver kostnaður sem ríkið hefur af því að halda utan um skrána sem slíka en þetta á náttúrlega að vera gjaldfrjálst og opið öllum. Það eykur gagnsæi, eykur möguleika almennings og annarra fyrirtækja, m.a. fjölmiðla til virks eftirlits og aðhalds. Gagnsæi í þessu samhengi er alltaf af hinu góða. Ef þetta eru ekki upplýsingar sem eiga ekki erindi til almennings, eru ekki upplýsingar sem varða einhvers konar brot á löggjöf um persónuvernd eða eitthvað þess háttar, þá eiga þær auðvitað að vera í opnu aðgengi þannig að við getum einfaldlega nálgast þær án vandkvæða. Ég vona svo sannarlega að þetta ágæta mál sem hv. þingmaður vísaði til verði lagt fram fljótlega og klárað.