150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hygg nefnilega að við hv. þingmaður séum alveg sammála þegar kemur t.d. að þeim kröfum sem við eigum að gera til opinberra aðila, sérstaklega til ríkisins, þegar verið er að ræða opinber kaup á þjónustu. Ég rek oft upp stór augu þegar ég sé umtalsverð viðskipti; ráðgjafarkaup ráðuneyta frá aðilum sem t.d. tengjast augljóslega viðkomandi fagráðherra pólitískum böndum eða vinaböndum, eða ég sé nokkuð augljósa og sterka tengingu á milli aðila. Þá finnst mér eðlilegt að spurt sé hvernig staðið hafi verið að ákvörðunum um slík viðskipti. Þá finnst mér líka eðlilegt að gera kröfu til viðkomandi ráðherra að gera grein fyrir tengslum sínum áður en ákvörðun um slík viðskipti er tekin og það sé tryggt að ráðherra komi þar hvergi nærri. Það gefur auðvitað ekki af sér sérstaklega góðan brag, þó svo að í hinu litla íslenska samfélagi sé oft hægt að rekja tengingar ansi víða án þess að neitt annað sé þar á bak við en einmitt bara sú staðreynd að við erum lítið og smátt samfélag. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa mikið og gott gagnsæi og að gerð sé samviskusamlega grein fyrir tengingum ef þær eru fyrir hendi.

Þegar kemur hins vegar að atvinnulífinu er eðlilegt og nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að geta viðhaldið leynd yfir viðkvæmum málefnum viðkomandi fyrirtækja. Þá kemur það einmitt líka að þeirri umgjörð þegar kemur að t.d. CFC-félögum eða aðgerðum gegn peningaþvætti o.s.frv., að það er oft mjög snúið að greina á milli fullkomlega eðlilegra og heiðarlegra viðskipta þar sem við erum fyrst og fremst að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir t.d. alþjóðleg fyrirtæki sem hér starfa, eðlilegt og samkeppnishæft rekstrarumhverfi, og svo aftur (Forseti hringir.) sviksamlegra viðskipta. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé metnaður og fjármagn í eftirlitinu.