150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans í 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga. Við stöndum alltaf í sömu sporunum í þessari umræðu. Hér er alltaf karpað um hvort þær fjárveitingar sem um ræðir eigi við og hvort þær falli innan þeirra marka sem rætt er um í lögum um opinber fjármál, þ.e. að útgjöldin séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Ég held, frú forseti, að það sé orðið tímabært að fara yfir þessa skilgreiningu. Við stöndum alltaf í sömu sporum, körpum á milli okkar um hvort þetta eigi við eða ekki. Það þarf bara hreinar línur. Það sem ég sakna í þessum efnum er að það er í raun og veru enginn úrskurðaraðili. Þetta er mjög skýrt í lögunum en það kemur hins vegar sífellt betur í ljós að vilji stjórnvalda, ríkisstjórnar á hverjum tíma, er að hártoga og snúa jafnvel út úr um hvort viðkomandi heimildir eigi að vera þarna inni eða ekki.

Það sem mig langaði einfaldlega að spyrja hv. þingmann er hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé tími til kominn að núna reynum við að leggja nokkuð hreinar línur um þetta. Það er alveg augljóst að þarna eru heimildir sem eiga ekki heima þarna. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða það í mörgum tilfellum. Við bendum á þetta í hverri ræðunni á fætur annarri og það er svo sem hlustað á það en ekki tillit tekið til þess. Þannig að mín spurning er einfaldlega þessi: Er ekki kominn tími til að við reynum að leggja hreinar línur um hvað fellur þarna undir og hvað ekki og fá almenna, góða skilgreiningu sem hægt er að fara eftir?