150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tímamótanefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar sem samanstendur af öllum flokkunum í stjórnarandstöðunni. Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir fjárheimildum upp á 20 milljarða kr. fyrir núgildandi ár en sé tekið tillit til varasjóðs, eins og hér er gert, aukast útgjöldin um 15 milljarða kr. Afkoma ríkisins fyrir núgildandi ár, 2019, átti að vera 29 milljarðar kr. í afgang. Þetta átti að vera ágætisár. En hver er raunin? Hallinn er upp á 15 milljarða. Hallinn fyrir árið 2019 verður 15 milljarðar. Þetta er sveifla upp á 43 milljarða til hins verra á þessu ári. Sjálfstæðismenn hafa lengi stært sig af því að vera góðir í rekstri ríkisfjármála en tölurnar ljúga ekki og þetta sýnir, þó að auðvitað sé margt óvænt og ekki hægt að gera ráð fyrir öllu, að ég held að ríkiskassinn þurfi a.m.k. á hvíld að halda frá Sjálfstæðismönnum.

Við áttum þessa umræðu í fyrra þar sem stjórnarandstaðan, þar á meðal við í Samfylkingunni, gagnrýndi að forsendur fjárlaga fyrir 2019 væru allt of óraunsæjar og byggðar á óskhyggju og óraunsæi. Ég held að það sé einfaldlega að koma á daginn sem menn vissu, að forsendur þessa fjárlagafrumvarps væru byggðar á sandi. Ég átta mig fullvel á því að ýmislegt í þessu frumvarpi til fjárauka var ekki hægt að sjá fyrir. Ætli menn að fara í andsvar og benda á hluti sem séu ófyrirséðir, gott og vel, en það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem uppfyllir í raun og veru ekki hin ströngu skilyrði fjáraukalaga. Mér fannst framsögumaður meiri hlutans taka undir það og hann nefndi sérstaklega málefni kirkjunnar. Ég get komið aðeins að því á eftir.

Í fjáraukalögum, ólíkt fjárlögum, má eingöngu bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum. Þessi skilyrði þurfa öll að vera uppfyllt. Útgjöldin þurfa að vera allt í senn tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Ýmislegt í þessu frumvarpi á í raun og veru ekki heima í fjáraukalögum heldur í fjárlögum. Það kemur einmitt fram í IX. kafla frumvarpsins til laga um opinber fjármál að þegar þau lög voru sett var verið að þrengja skilyrði til að leita aukinna fjárheimilda með fjáraukalögum. Í greinargerð með lögunum um opinber fjármál kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Þá var með lögum um fjárreiður ríkisins settur lagarammi um heimildir framkvæmdarvaldsins til fjárráðstöfunar með hliðsjón af ákvæði 41. gr. stjórnarskrárinnar um að eigi megi greiða gjald úr ríkissjóði nema með heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í lögunum var mörkuð skýr stefna um hlutverk fjáraukalaga en gætt hafði tilhneigingar til að færa ýmsar útgjaldaheimildir í fjáraukalög sem með réttu hefði átt að setja í fjárlög. Með lögunum var skýrt kveðið á um það að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir skyldu koma fram í fjárlögum.“

Væri útgjaldatilefnið fyrirséð ætti það ekki heima í fjáraukalögum. Um þetta voru allir flokkar sammála og eru a.m.k. í orði sammála um, herra forseti.

„Í fjáraukalögum ætti hins vegar að fjalla um fjárráðstafanir sem ekki var unnt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.“

Í 26. gr. laga um opinber fjármál segir:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við“ — eins og ég gat um áðan „tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Þarna kemur fjórða skilyrðið: „...enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Þetta eru merkilegt nokk sömu skilyrði og búa að baki notkun almenns varasjóðs. Við tókumst heilmikið á um þau þegar breytingartillaga okkar í Samfylkingunni um að setja fjármuni til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar á Samherjamálunum á fjárlög en ríkisstjórnin felldi þá tillögu, ekki einu sinni heldur tvisvar, m.a. með vísun í að það ætti að nota varasjóði. Við tókumst heilmikið á um þetta og að mínu mati er það frekar skýrt að notkun hins almenna varasjóðs sé ekki leyfileg þegar kemur að þessu einstaka máli. Það er kannski óþarfi að fara að endurtaka þá umræðu hér.

Ég fer aðeins til baka og aftur í frumvarp til fjáraukalaga sem við erum að ræða hér. Þetta lítur enn þá of mikið út eins og fyrri fjárlagafrumvörp. Það má vel vera að stjórnarþingmenn geti bent á verri fjáraukalagafrumvarp en þetta, að við séum að fara í rétta átt, gott og vel, en enn eru of mörg dæmi þess að hér sé lögum um opinber fjármál ekki fylgt til hins ýtrasta. Tökum nokkur dæmi um þetta. Við sjáum hér að Ríkisendurskoðun, sem er ein af fáum stofnunum sem er á vettvangi þingsins, ekki á vettvangi framkvæmdarvaldsins, bendir einmitt á þetta líka í sinni umsögn. Ég ætla að lesa upp úr umsögn Ríkisendurskoðunar sem fjallar um frumvarp til fjáraukalaga og bendir á að í þessu frumvarpi séu útgjöld sem eigi ekki heima í fjáraukalögum heldur annaðhvort í fjárlögum ellegar að þeim sé mætt með varasjóðnum eða með tilfærslum innan málaflokka.

Förum aðeins yfir þetta, með leyfi forseta. Það er Ríkisendurskoðun sem talar, ekki stjórnarandstöðuþingmaðurinn Ágúst Ólafur:

„Ekki er hægt að fullyrða að allar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi verið ófyrirséðar við gerð fjárlaga. Má þar nefna framlög til Þjóðkirkjunnar á grundvelli samkomulags hennar við ríkið um að ríkissjóður kosti tiltekinn fjölda presta og um uppgjör á hækkunum á launum presta árið 2017.“

Þetta er ekki lítil tala í þessu frumvarpi. Var þetta ekki um milljarður? Mig minnir það. (Gripið fram í: 1,1.) Já, 1,1 milljarður. Mér fannst eins og framsögumaður meiri hlutans tæki undir að þetta væri a.m.k. á gráu svæði. Ég ætla ekki að leggja honum orð í munn en Ríkisendurskoðun hefur þessa skoðun og ég get tekið fram að ég deili þeirri skoðun líka. Við erum búin að ræða málefni kirkjunnar í þrjá daga samfleytt, loksins komumst við í eitthvað annað, en við höfum séð að fjárútgjöld til kirkjunnar virðast dúkka upp á fjáraukalögum ár eftir ár. Kirkjan var á fjáraukalögum 2018, 2017 og 2016, og svo 2019. Það er alltaf verið að vísa í viðbótarsamning þannig að ég vona að við munum ekki sjá þjóðkirkjuna dúkka enn eitt skiptið upp í fjáraukalögum því að svona útgjöld eiga að vera í fjárlögum, vilji menn fylgja lögum til hins ýtrasta, sem við hljótum að vilja.

Ég ætla að halda áfram að vitna aðeins í Ríkisendurskoðun sem gagnrýnir einstök atriði í fjáraukalagafrumvarpinu. Hún segir hér, með leyfi forseta:

„Álitamál er hvort að ákvörðun um að millifæra hluta af fjárveitingu Fjarskiptasjóðs til verkefnisins 115 Samningur við fjarskiptafyrirtækið Farice ehf. til að standa m.a. undir kostnaði við lagningu ljósleiðara verði talin falla að tilgangi fjáraukalaga um að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins. Hins vegar er ljóst að ráðherra hefur ákveðnar heimildir samkvæmt lögum um opinber fjármál til þess að færa fjárveitingar á milli liða innan sama málaflokks.

Að sama skapi má velta upp þeirri spurningu hvort í fyrirliggjandi frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2019 sé með fullnægjandi hætti mætt öllum útgjaldatilefnum sem með réttu ættu heima í fjáraukalögum. Í því samhengi má til að mynda nefna halla á rekstri sumra stofnana á þessu ári að því marki sem hann er tímabundinn, ófyrirséður og óhjákvæmilegur.

Hækkun á framlagi til að mæta sveiflum vegna liðarins erlendur sjúkrakostnaður, sem fram hefur komið að er breytilegur frá ári til árs, gefur tilefni til að huga að notkun varasjóða til þess að mæta sveiflukenndum útgjöldum. Bæði mætti hugsa sér að nýta varasjóði málaflokka og almenna varasjóðinn til að mæta útgjöldum af þessum toga. Minnt skal á að fjárveiting í varasjóð fyrir hvern málaflokk skal nema að hámarki 2% af fjárheimildum til málaflokksins. Að mati Ríkisendurskoðunar“ — þetta er mikilvægt — „væri æskilegt að frumvarpi til fjáraukalaga fylgdi yfirlit sem sýnir ráðstöfun og stöðu varasjóða á árinu.

Að mati Ríkisendurskoðunar færi betur á því að fjárveitingum væri ráðstafað beint úr almenna varasjóðinum inn á viðkomandi fjárlagaliði í staðinn fyrir að framlag til hans sé lækkað í fjáraukalögum til að mæta útgjöldum. Lög nr. 123/2015 um opinber fjármál gera enda ráð fyrir því að almenni varasjóðurinn sé notaður með þeim hætti enda séu umrædd útgjöld“ — nú er ég eins og biluð plata — „tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Tilgangur almenna varasjóðsins er ekki síst að draga úr þörf á að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga.“

Lokapunkturinn hjá Ríkisendurskoðun:

„Að mati Ríkisendurskoðunar er eðlilegra að heimildarákvæðin um stofnun hlutafélags í kringum þjóðarleikvang í Laugardal og um yfirtöku ríkisins á Speli ehf. séu tilgreind í fjárlögum 2020 en frumvarp til þeirra er nú til meðferðar hjá Alþingi. Fyrrnefnda félaginu er ætlað að vinna að undirbúningi og sviðsmyndagreiningu að mögulegum nýjum þjóðarleikvangi í Laugardal í stað Laugardalsvallar og er gert ráð fyrir að frekari framlög til félagsins komi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu með þjónustusamningi. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að huga vel að því með hvaða hætti verkefnum ríkisins er útvistað til opinberra hlutafélaga.“

Hér er Ríkisendurskoðun á sinn diplómatíska máta að fara aðeins yfir þau atriði sem Ríkisendurskoðun telur að ættu í raun ekki heima í fjáraukalagafrumvarpinu heldur í fjárlögum eða útgjöld sem væri hægt að mæta með varasjóðunum, annars vegar varasjóðum málaflokka eða almenna varasjóðnum — eða með tilfærslum innan málaflokka.

Í fjáraukalagafrumvarpinu erum við að setja núna 2,5 milljarða til Landspítalans. Er ófyrirséður sá halli sem Landspítalinn býr núna við? Hann er ekki ófyrirséður, við heyrum þetta á hverju einasta ári. Forsvarsmenn Landspítalans hafa komið til fjárlaganefndar og gefið umsögn hvað það varðar að það stefnir að óbreyttu í halla. Mig minnir að halli þessa árs stefni í 4 milljarða að öllu óbreyttu en nú stendur Landspítalinn í umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum, eins og forstjóri spítalans orðaði það, umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum þrátt fyrir allt sem ríkisstjórnin telur sig vera að gera gagnvart spítalanum. Það má alveg velta því fyrir sér, og kannski sýnist sitt hverjum, hvort þessi aukning í Landspítalann á 2,5 milljarða í fjáraukalögunum sé ófyrirséð eða ekki. Þetta eru ekki bara deilur um keisarans skegg, þetta skiptir máli því að við sáum að fjáraukalögin á árum áður voru misnotuð, alveg burt séð frá því hvaða ríkisstjórn var við stjórnvölinn. Ég held að við öll í þessum sal viljum í rauninni sjá sem minnst á fjáraukalögum. Þá þurfum við líka að standa í lappirnar saman og henda út því sem er kannski á mörkunum að uppfylli skilyrði laga um opinber fjármál. Við hljótum alveg að geta gert það. Við sáum t.d. þegar samgönguráðherra nýtti sér varasjóð, minnir mig, frekar en fjáraukalög, til að mæta samgöngubótum í fyrra. Við áttum þessa umræðu í fjárlaganefnd og ég held að okkur öllum hafi fundist a.m.k. á gráu svæði sú nýting á varasjóði í ljósi þess að viðhald á vegum er ekki beint ófyrirséð, í ljósi þess að bæði innlendir og erlendir aðilar hafa svo sannarlega bent á að hér þurfi að bæta allverulega í viðhald á vegum.

Ég get svo sem farið í einstök atriði. Hér er verið að setja fjármuni í breytta gæslu við Stjórnarráðið. Er það ófyrirséð? Ég ætla ekki að fullyrða það en velti því fyrir mér. Það er verið að bæta peningum í ljósleiðara um Mjóafjörð og annað slíkt. Er það ófyrirséð? Það er verið að setja pening til að stytta málsmeðferðartíma hjá Útlendingastofnun. Við getum alveg verið sammála verkefnunum, ég ætla ekkert að gagnrýna verkefnin, en er það ófyrirséð að setja pening í það? Það er verið að setja pening í reglubundnar þjónustukannanir hjá heilsugæslunni. Er það ófyrirséð? Það er verið að bæta 140 milljónum í sjúkraflutninga samkvæmt fastagjaldi og svo er sagt hérna: „Fastagjaldið er samningsbundið og því verður ekki breytt.“ Ég þekki ekki smáatriðin í þessu máli en ég bara velti því fyrir mér af hverju þetta sé ekki bara í fjárlögum. Það getur vel verið að það séu einhverjar eðlilegar skýringar á þessu.

Það er hægt að tína til hitt og þetta. Ýmislegt hérna er auðvitað ófyrirséð þannig að ég er ekkert að segja að allt sé á gráu svæði. Ríkið er að tapa dómsmálum og atvinnuleysi er meira en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir og annað slíkt en við eigum samt að fara svolítið krítískt yfir þetta því að annars munu ráðherrarnir ganga á lagið. Ég held að það sé freistnivandi þeirra allra að nýta sér fjáraukalögin með þeim hætti sem hér er gert. Kannski hefur þetta verið að fara í rétta átt, ég átta mig alveg á því að þetta er skárra en oft áður.

Svo ég fari aðeins í aðra þætti eru lögin um opinber fjármál mjög skýr um að ráðherra beri ábyrgð á framkvæmd fjárlaga og að reksturinn skuli vera skilvirkur og hagkvæmur. Því markmiði getur ráðherra náð með því að setja reglur um nýtingu þeirra fjárheimilda sem fjárlög kveða á um. „Ráðherra getur líka breytt skiptingu fjárheimilda innan málaflokks enda sé ekki um að ræða tilfærslu fjárveitinga milli rekstrar, tilfærslna eða fjárfestinga og, ef allt annað þrýtur, gripið til varasjóðs málaflokks eða fjár úr almennum varasjóði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.“ — Þetta var nú setning sem ég skildi varla sjálfur. Hún er í nefndarálitinu.

Öllum þessum úrræðum þarf ráðherra að beita til þess að ná markmiðum fjárlaga, ef fjárheimildir duga ekki til, áður en gripið er til þess að leita heimilda í gegnum fjáraukalög. Áður en við fáum fjáraukalögin á hann að grípa til þessara millifærslna annars vegar, sé heimild fyrir þeim, eða í varasjóðina. Fjáraukalögin eiga að vera síðasta úrræðið, ef svo má segja, og jafnvel þó að þetta úrræði sé fyrir hendi skiptir máli að þessi skilyrði um tímabundið, ófyrirséð og óhjákvæmilegt atvik verða að vera uppfyllt.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir 2019 er ekki nægilega útskýrt hvernig sumar fjárheimildir sem beðið er um uppfylla ofangreind skilyrði. Bökkum svo aðeins í æðstu réttarheimildina sem er stjórnarskráin. Ég minntist aðeins á hana áðan. Í 41. gr. er talað um að ekkert gjald megi greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það má ekki greiða krónu úr ríkissjóði nema samkvæmt fjáraukalögum eða fjárlögum. Við ættum kannski alltaf að reyna að hafa það í huga. Ég veit að stundum er erfitt að áætla hlutina. Við erum að tala um 900–1.000 milljarða kr. ríkisreikning og auðvitað er ýmislegt sem er ekki hægt að sjá fyrir. Ég átta mig alveg á því.

Í 26. gr. laga um opinber fjármál segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Þarna vildi ég bæta við: Samkvæmt 19. gr. skal fylgja með fylgirit þar sem skýrt er frá skiptingu fjárveitinga til ríkisaðila og verkefna.

Svo ég dragi aðeins fram minn helsta gagnrýnispunkt er hann sá að það lá ekki nægilega skýrt fyrir fjárlaganefnd að ráðherra hefði gripið til allra þeirra ráðstafana sem hægt er að nota til þess að fjárveitingar fari ekki fram úr fjárheimildum áður en leitað er til fjáraukalaga.

Við ræddum aðeins hlutverk varasjóða og við höfum svo sem gert það í öðru samhengi líka. Við ræddum bæði almenna varasjóðinn og varasjóði málaflokka. Það er sérstök ástæða og tilefni til að minna framkvæmdarvaldið á skilyrði þess að nýta varasjóði.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er sótt um nýjar fjárheimildir upp á 15 milljarða kr. Við höfum varasjóðsheimildir í fjárlögunum. Það er óvænt eða óvenjuleg framsetning að setja ráðstöfun varasjóðsins inn í fjáraukann og í rauninni ekki gagnsætt að því marki að ekki kemur fram hvaða aðgerðir eru að baki 5,1 milljarðs framlagi úr varasjóði. Það er verið að lækka varasjóðinn um 5,1 milljarð til að mæta breytingum sem hér er farið fram á. Auðvitað er eðlilegt að það liggi skýrt fyrir hvernig varasjóðum er ráðstafað og fjárauka sömuleiðis.

Í lögum er áskilnaður um að hver ráðherra skuli veita fé af fjárheimildum til málaflokks í sérstakan varasjóð fyrir málaflokkinn. Því má velta fyrir sér hvort það sé ekki gagnrýnisvert að ekki eru varasjóðir til staðar fyrir alla málaflokka, eftir því sem mér sýnist. Það ætti væntanlega að koma til skoðunar. Það vekur einnig athygli að í greinargerð með fjáraukalagafrumvarpinu er dregin upp sú mynd að góður árangur hafi náðst þar sem umfang fjáraukalaga sé nú mun minna sem hlutfall af útgjöldum ríkissjóðs. Þá viljum við í minni hlutanum minna á að sú mynd verður hugsanlega aðeins öðruvísi ef við hana er bætt almennum varasjóði og varasjóðum málaflokkanna. Þið munið að varasjóðirnir áttu að taka við lunganum af því sem hefði annars endað í fjáraukalögunum þannig að við skulum bera saman epli og epli. Þegar stjórnarmeirihlutinn stærir sig af að hann hafi oft séð það svartara í fjáraukalögum þarf kannski líka að taka tillit til þess að við höfum úrræði innan laganna sem lýtur að varasjóðunum.

Í kaflanum um endurmat á afkomu ársins 2019 kemur fram að heildartekjur lækki um 30 milljarða. Við framlagningu breytingartillagna við frumvarp til fjáraukalaga á Alþingi skal liggja fyrir mat á áhrifum þeirra á heildarafkomu ríkissjóðs, skuldbindingar hans og aðrar forsendur fjármálaáætlunar.

Ég vísa að öðru leyti í nefndarálitið.

Áður en ég hætti langar mig að nefna örfá einstök mál í fjáraukanum. Það vekur athygli að í fjáraukalagafrumvarpinu er gerð tillaga um rúmlega 20 millj. kr. hækkun til að mæta launakostnaði þriggja skipaðra landsréttardómara frá því í ágúst vegna áhrifa dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um að fjórir dómarar séu ekki löglegir til að dæma við réttinn. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina hvað þetta varðar er rúmar 28 milljónir en það er einungis hluti af kostnaði skattgreiðenda vegna klúðurs ríkisstjórnarflokkanna við skipun dómara við Landsrétt. Enn er meiri hlutinn núna að bæta við breytingartillögu um að setja inn meiri fjármuni vegna þessa máls. Um 5,4 milljarðar fara úr ríkissjóði vegna dóms Landsréttar um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega. Þá er einnig verið að leiðrétta örorkubætur í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að lækkun greiðsluhlutfalls lífeyris vegna búsetu erlendis væri ekki í samræmi við lög. Þessi tvö mál sýna hversu nauðsynlegt er að vanda bæði lagasetninguna og að sjálfsögðu framkvæmd laganna hjá einstökum stofnunum. Hluti af þessum vanda er að við eigum að flýta okkur hægt og þetta er kannski hluti af þeim vanda að við fáum oft stjórnarfrumvörp allt of seint og í allt of mörgum tilvikum sjáum við að löggjöfin stenst ekki nána skoðun og getur valdið fólki miklum óþægindum.

Við sjáum að 7,6 milljarðar eru í fjáraukalögunum vegna aukins atvinnuleysis en það er áhugavert að hvert prósentustig í auknu atvinnuleysi kostar um 6,5 milljarða þannig að hér sér allur þingheimur hvað það skiptir miklu máli að berjast gegn atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum, fyrir utan hinn mannlega harmleik sem er fólginn í atvinnuleysi, ekki síst þegar litið er til langtímaatvinnuleysis. Því miður er atvinnuleysi á uppleið en í forsendum fjárlaga næsta árs, sem við erum nýbúin að afgreiða, er gert ráð fyrir frekar lítilli breytingu á atvinnuleysi á næsta ári. Aftur er það tilfinning mín að óskhyggja og óraunsæi ráði ríkjum hjá ríkisstjórninni. Fjöldi atvinnulausra er núna yfir 7.000 manns en var yfir 4.000 í fyrra þannig að fjölgunin milli ára er talsverð. Við ættum að skoða þetta sem þingmenn, öll, úr hvaða flokki sem er, og hafa miklar áhyggjur af auknu atvinnuleysi. Ég minni á þær aðgerðir sem fyrri ríkisstjórnir gripu til til að sporna við langtímaatvinnuleysi, ekki síst eftir bankahrunið.

Við sjáum að sérhæfð sjúkrahúsþjónusta fær 2,5 milljarða kr. í fjáraukalagafrumvarpinu vegna aukins kostnaðar. Rekstrarvandi Landspítalans lækkar við þetta í 4 milljarða sem er auðvitað enn mikið áhyggjuefni. Oft virðist eins og stjórnvöld viti að fjárlög dugi ekki til, menn sigli bara sofandi að feigðarósi, ef svo má að orði komast, vita að Landspítalinn mun ekki ná endum saman því í eðli sínu nær Landspítalinn ekki að stjórna sinni eftirspurn, þetta er endastöð þjónustunnar þannig að burt séð frá því hvað við setjum í fjárlög mun fólk áfram veikjast og slasast og þurfa á þeirri þjónustu að halda. Það er okkar að mæta þeim kröfum sem Landspítalinn telur sig þurfa að setja fram. Þetta erum við öll kosin til að gera. Allir stjórnmálaflokkar lofuðu miklu í heilbrigðismálum og það er augljóst að kerfið þarf meira. Ég veit að stjórnarmeirihlutinn talar um að hann hafi gert nóg en ekki þarf annað en að líta yfir umræðuna í heilbrigðismálum til að sjá að hér er ekki nóg gert. Ef við hlustum á forsvarsmenn Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri, hjúkrunarheimilanna eða heilbrigðisstofnana úti á landi heyrum við að enginn segir að nóg hafi verið gert. Af hverju getum við ekki hlustað á þær raddir?

Það er kannski rétt að vekja athygli á því að ríkisstjórnin lækkar fjárheimildir til byggingar nýs Landspítala um 1,5 milljarða vegna tafa við framkvæmdir, eins og segir í greinargerð. Við sjáum vaxtabæturnar áfram lækka en vegna ótrúlega mikilla skerðinga fækkar ætíð þeim sem þeirra njóta. Í fjárlögum næsta árs eiga eingöngu 3,4 milljarðar að renna til vaxtabóta en ég vek athygli á að fyrri ríkisstjórnir vörðu allt að 16 milljörðum í vaxtabætur. Hugsið ykkur. 16 milljarðar fóru í vaxtabætur á ári þegar mest var. Nú erum við komin niður í rúma 3 milljarða. Vaxtabætur skipta fólk máli, fólk sem hefur ekki mikla peninga úr að spila. Þegar mest var — ég held að ég fari rétt með — dekkuðu vaxtabætur helming greiðslunnar sem tekjulægstu heimilin vörðu í húsnæðismálin. Mér finnst þetta úrræði ekki svipur hjá sjón og mér finnst þessi ríkisstjórn meðvitað vera að grafa undan úrræði vaxtabóta. Ég hef ítrekað átt orðaskipti við formann Sjálfstæðisflokksins um þetta sem mér finnst í rauninni ekki hafa trú á þessu bótafyrirkomulagi og eins og alltaf ræður hann í þessu stjórnarsamstarfi.

Að lokum er sérstaklega ámælisvert að ekki séu tryggðar í fjáraukalögum þær kjarabætur sem má finna í svokölluðum lífskjarasamningum handa öryrkjum og eldri borgum. Það er dapurlegt að ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks treysti sér ekki til að bæta kjör þessara stóru hópa með sambærilegum hætti og gert hefur verið fyrir aðra hópa í samfélaginu. Hér er ég búinn að fara aðeins yfir nefndarálitið og bæta aðeins í. Að sjálfsögðu tala ég bara fyrir mig en ég vísa að öðru leyti í þetta nefndarálit sem má finna í hliðarsölum og undir það rita Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson og Inga Sæland. Síðan er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, Þorstein Víglundsson, samþykkur þessu áliti og ritar undir það.

Ég sé að núna er rúm mínúta eftir. Ég held að ýmislegt í þessu frumvarpi sé óvænt og ófyrirséð en allt of margt er það ekki. Að minnsta kosti er margt sem hefði kannski þurft að útskýra miklu betur að ætti heima í fjáraukalagafrumvarpinu en ekki annaðhvort í fjárlögum eða að varasjóðirnir ættu að dekka það. Við megum ekki stuðla að því að ráðherrarnir hafi bakdyraleið að ríkiskassanum eins og þeir hafa í allt of mörg ár haft. Ég bind vonir við að frumvarp til fjáraukalaga vegi alltaf minna og minna. Ég held að fjárlaganefnd öll sé alveg sammála því að vilja sjá lítil og snauð fjáraukalagafrumvörp en þá þurfum við líka að standa svolítið í lappirnar, sérstaklega þegar kemur að málum sem eru óumdeilanlega algjörlega á gráu svæði. Þarna getur verið margt sem orkar tvímælis og við erum ekki alltaf sammála um hvað sé ófyrirséð og hvað fyrirséð. En hér eru enn allt of margir þættir, þó að þetta sé skárra núna en í fyrra og enn skárra núna en í hittifyrra, sem eru á gráu svæði, svo ég fullyrði nú ekki meira en það.