150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt spurning mín: Hvernig eru þetta óvænt útgjöld? Þetta er sérstök ákvörðun að stofna til nýrra útgjalda í fjárauka og það er ekki eitt af skilyrðunum sem þarf að uppfylla samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þetta uppfyllir skilyrðið um að vera tímabundið, en ekki óvænt eða ófyrirséð. Það er greinilega fyrirséð að lögreglan þarf þennan tækjabúnað en það var ekki tekin ákvörðun um það í fjárlögum eða gerð stefna um það í fjármálaáætlun að uppfylla þá þörf. Ég velti fyrir mér þegar allt kemur til alls hvort við eigum að fara eftir lögum um opinber fjármál eða ekki.